144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Stóra spurningin er hvort við höfum efni á því að hafa fyrsta flokks heilbrigðiskerfi á Íslandi. Við höfum haft efni á því sem miklu fátækari þjóð en við erum í dag. Það sem ríkisstjórnin er að afsala sér í tekjum af sérstökum veiðigjöldum eru tekjur sem eru lagðar á hagnað. Þær eru lagðar á hagnaðinn af því að fá að stunda það að útiloka aðra frá því að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Ef við hefðum ekki afsalað okkur þeim tekjum frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum hefðum við getað sett aukna fjármuni, um 7–10 milljarða, í heilbrigðiskerfið til að byggja það upp eftir að hafa verið í bakkgírnum frá hruni.

Eru einhverjar aðrar tekjur sem við höfum afsalað okkur? Við höfum afsalað okkur auðlegðarskattinum. Það hefði verið hægt að taka hann kannski eitt ár í viðbót til að endurbyggja heilbrigðiskerfið, það voru um 10 milljarðar þar. Og bankaskatturinn, sem réttilega átti að kasta yfir þrotabúin árið 2010 þegar hann var settur á, markmið þess bankaskatts var að innheimta, eitt af tveimur markmiðunum var að innheimta einhvern hluta af þeim skaða sem ríkissjóður varð fyrir vegna hrunsins. Þá hefði verið hægt að gera það sem var vel gert í þeirri útfærslu varðandi skuldaleiðréttinguna, að ná inn þeim peningum frá þrotabúunum þar sem ábyrgðin liggur að sjálfsögðu hvað mest, þ.e. hjá þeim aðilum sem áttu þau þrotabú. En í staðinn fyrir að nota þá í það að ríkissjóður gæti farið að bregðast við þeim skaða sem orðið hefur, og náttúrlega er stærsti skaðinn sá að heilbrigðiskerfið hefur verið í bakkgír, verulegur niðurskurður hefur verið þar og læknar eru í verkfalli í fyrsta skipti í sögunni — það er það sem hefði verið hægt að gera við þá peninga, sem eru núna um 20 milljarðar á ári, nei, það eru 17 milljarðar á ári, 20 milljarðar er heildarpakki ríkisstjórnarinnar, næstu fjögur árin.

Eru einhverjir aðrir peningar sem við hefðum getað notað til þess að forgangsraða í heilbrigðiskerfið? Já, við fengum óvæntar skatttekjur núna á þessu ári sem er að líða, vegna þess að það voru ákveðnar bókhaldsbreytingar hjá Seðlabankanum þannig að þar skiluðu sér inn tugmilljarðar. Og svo var arðurinn úr bönkunum, Landsbankinn er nánast alfarið í eigu íslenska ríkisins. Þar komu inn auknar tekjur, ég man ekki hvað það var, 10–15 milljarðar. Þá peninga hefði verið hægt að setja í heilbrigðiskerfið til að ná því upp á það stig að læknar væru tilbúnir, sérfræðingarnir, læknarnir og heilbrigðisstarfsfólkið, að starfa í heilbrigðiskerfinu og að hægt væri að veita þá þjónustu sem forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins segja að sé nauðsynleg, og gefa í. Það hefði verið hægt að forgangsraða í heilbrigðiskerfið í öllum þessum tilfellum. Það var ekki gert.

Þá er það spurningin: Hvað er hægt að gera núna? Jú, í þessu frumvarpi er að sjálfsögðu hægt að hækka sérstöku veiðigjöldin, taka inn meira þar hjá þeim sem fengu hvalreka í formi lægri krónu meðan allir aðrir urðu fyrir búsifjum nema þá ferðaiðnaðurinn. Það er hægt að gera enn þá. Einnig er hægt, jafnvel þó að ríkisstjórnin ákveði: Nei, við ætlum ekki að gera það, við ætlum ekki að hækka þann skatt, við erum afgerandi í okkar afstöðu að sjávarútvegurinn eigi ekki að borga meira. Þá samt sem áður eru þessi fjárlög upp á rúma 4 milljarða í plús eins og þau standa núna. Það eru því til peningar til að setja þá rétt rúmu 3 milljarða sem vantar upp á það sem forsvarsmenn heilbrigðisstofnana um land allt segja að vanti til að þeir geti veitt nauðsynlega þjónustu. Þetta er staðan núna.

Að sjálfsögðu er hægt að forgangsraða þannig að við höldum áfram að hafa fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Það er hægt og við getum enn gert það núna á þessum fjár- og tekjuöflunarfrumvörpum. Í það minnsta er hægt með hallalaus fjárlög, án þess að auka skatta eða gjöld, að tryggja það að nauðsynlega þjónustu sé hægt að veita í heilbrigðiskerfinu með því að setja 3 aukamilljarða í það.