144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður orðar þetta svona og spyr hreinlega um líðan þá er þessi tilfinning náttúrlega ömurleg. En það sem mér gremst mest er það sem ég kom aðeins inn á í ræðu minni áðan og er sú staðreynd að ekkert af þeim skemmdarverkum sem verið er að vinna núna var nefnt í kosningabaráttu þessara tveggja flokka. Þar finnst mér Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vera að koma aftan að kjósendum sínum. Ég heyrði aldrei talað um að keyra Landspítalann – háskólasjúkrahús fram af hengifluginu. Ég heyrði aldrei að það stæði til að þrengja svo að Ríkisútvarpinu að til þessa neyðarástands kæmi sem við erum að horfast í augu við núna. Ég heyrði aldrei að það stæði til að stytta atvinnuleysisbótatímabilið. Ég heyrði aldrei að það stæði til að loka framhaldsskólanum fyrir 25 ára og eldri. Ég heyrði aldrei að það stæði til að hækka matarskatt. Ég heyrði aldrei að það stæði til að hækka skatt á bækur.

Ekkert af þessum málum var nefnt í kosningastefnuskrám þessara flokka. Það finnst mér óheiðarlegt, mér finnst það ólýðræðislegt, mér finnst það ógagnsætt en því miður er það ekki í fyrsta skipti sem þessir flokkar — einhver mundi segja ljúga sig inn á kjósendur, eins og þessir flokkar hafa gert.