144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er ekki til einskis að hér séu málin rædd því að fram hefur komið á þessu ágæta kvöldi, sem verður til þess að ýmsir ágætir hv. kollegar okkar fara rólegir til náða í kvöld, að (ÖS: Að minnsta kosti einn.) Bankasýslan verður framlengd eitthvað fram eftir næsta ári að minnsta kosti, sú stofnun sem á að gæta armslengdar á milli stjórnmálanna annars vegar og fjármálakerfisins hins vegar.

Vegna þeirra orðaskipta sem ég átti fyrr á fundinum við hæstv. fjármálaráðherra vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hún áttaði sig eitthvað á þeim átökum sem virðast vera milli stjórnarflokkanna um umbúnað þessara mála og fram kemur einmitt í afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins núna, þar sem ljóst er að frumvarp fjármálaráðherra um efnið er fast í ríkisstjórninni og samstarfsflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, neitar að hleypa fjármálaráðherranum fram með fyrirætlanir sínar og setur Bankasýsluna fyrir vikið í uppnám núna um áramót.

Hins vegar, kannski vegna þess sem fjármálaráðherra ræddi í þeim orðaskiptum líka, sjónarmið um það hvort ekki þurfi að vera opið og gagnsætt söluferli, ekki bara á eignarhlutum í ríkisbönkum heldur líka eignarhlutum ríkisbanka í öðrum félögum.

Að lokum um þær fullyrðingar hæstv. fjármálaráðherra að hér sé góð sátt í öllum flokkum um að ríkið eigi að selja frá sér eignarhlut í Landsbankanum, vegna þess að hann sé fjármagnaður á lánum. Nú hefði ég haldið að það væru, að minnsta kosti í einhverjum þingflokkum, sjónarmið um að það væru býsna hagstæð lán sem væru á nokkurra prósenta vöxtum en skiluðu þeim tuga, jafnvel hundraða milljarða hagnaði sem eignarhlutir ríkisins í Landsbankanum hafa verið að skila á undanförnum árum. Ég vildi þess vegna spyrja hv. þingmann hvort það sé stutt af öllum þingflokkum í þinginu að ríkið selji hlut sinn í bankanum.