144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, við horfum upp á margháttaða ringulreið æ ofan í æ nánast í hverri viku hjá hæstv. ríkisstjórn og má kannski að einhverju leyti rekja það til þess að hér er sennilega í fyrsta sinn í sögunni sem hver einasti ráðherra sem í ríkisstjórninni er situr þar nú í fyrsta sinn og manni finnst gæta kannski ákveðins reynsluleysis við undirbúning mála fyrir þingið. Við fjölluðum nokkuð í hinu fyrra máli um hringlandaháttinn í skattapólitíkinni þar sem menn hafa fyrir örfáum missirum síðan eða árum komið með tillögur um að lækka matarskattinn úr 14% í 7%, þessir sömu flokkar sem nú flytja síðan tillögur fyrst um að hækka hann úr 7% í 12% og síðan úr 7% í 11% og boða svo hækkun úr 11% í 14% og hætta svo við að boða hækkun úr 11% í 14%, þannig að það áttar sig enginn orðið lengur á því hver stefna þeirra flokka er í þessum efnum.

Í frumvarpinu sem við erum að ræða eru atriði með örorkubyrði lífeyrissjóðanna. Það virðist vera svo augljóslega dæmi um hluti sem spilla algjörlega fyrir gerð kjarasamninga núna á útmánuðum, algerlega ljóst að aðilar vinnumarkaðarins munu aldrei sætta sig við svik á þeim samningum sem gerðir voru um þátttöku ríkisins í örorkubyrði nema þá að samið sé um eitthvað annað í staðinn. Fyrst frestaði fjárlaganefndin framkvæmdinni á þessu til 1. júlí þannig að það verði síðan hægt að semja þetta út af borðinu í kjarasamningum. Nú er búið að taka í burtu líka öll hin seinni árin þannig að eftir stendur sex mánaða aðgerð sem á síðan að semja um í kjarasamningum að falla frá. Það verður því ekkert úr þessu, þetta mun ekki spara nokkurn skapaðan hlut. En þetta hefur orðið til þess að spilla öllu andrúmslofti um samninga á vinnumarkaði. Þykir hv. þingmanni þetta ekki lýsa nokkuð reynsluleysi þeirra ráðherra sem með þessi mál fara?