144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki bara svo að sú ríkisstjórn sem nú situr sé í raun og veru reynslulaus með öllu þegar hún tekur við völdum vorið eða sumarið 2013, heldur er það líka annað sem gerist sem menn hafa kannski ekki áttað sig á eða rætt mikið um, það er sú staðreynd að þegar sú ríkisstjórn tekur við er enginn í þeirri ríkisstjórn sem kemur úr ríkisstjórninni næst á undan. Þegar maður horfir yfir ríkisstjórnarskipti í gegnum söguna þá kann maður að telja að það sé svo að hægri og vinstri stjórnir skiptist á með nokkuð skýrum hætti, en ef ég man rétt er staðreyndin sú að allt frá árinu 1971 er alltaf einhver í ríkisstjórninni sem var líka í ríkisstjórninni þar á undan.

Þetta er nokkuð áhugavert vegna þess að það gerir auðvitað að verkum að það er ákveðinn hluti af reynslu og þekkingu sem flæðir á milli ríkisstjórna og menn geta deilt bæði verklagi og þekkingu upp á gott og vont, því að það eru stundum líka ósiðir sem menn læra af sínum reynslumeiri félögum.

Af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um að auki hver stefnan eiginlega væri, vegna þess að hér hefur verið talað um Framsóknarflokkinn, sem féll í stafi yfir lækkuninni niður í 7% á sínum tíma og mikilvægi þess, en greiðir núna atkvæði í stórum stíl með stórfelldri hækkun matarskatts fyrir utan einn kjarkmikinn þingmann Framsóknarflokksins, að þá held ég að ekki sé ofmælt að kalla Framsóknarflokkinn hreinlega popúlistaflokk. Vegna þess að það er það sem svona flokkar eru, þ.e. þeir sem í raun og veru haga seglum eftir vindi í stóru og smáu.