144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta er svolítið skrýtinn vinnustaður. Við búum í raun og veru við meirihlutaræði og núna vill svo til að meiri hlutinn er gríðarlega umfangsmikill og er með ótrúlega mikinn meiri hluta. Það þýðir að meiri hlutinn lítur svo á að það sé engin ástæða til þess að vera endilega að hlusta mikið á minni hlutann þegar kemur að tillögum að úrbótum. Ég fagna því að það er lengt í hengingarólinni á Bankasýslunni, en það sem mér finnst vanta er skýrari sýn og skýrari svör og að tekið sé tillit til þess að hér varð rosalegt hrun. Þó að sumir þingmenn meiri hlutans líti svo á að það hrun hafi nú ekki verið tiltökumál og kalli það „svokallað hrun“ og setji lítinn staf á það, þá varð hér gríðarlega umfangsmikið hrun, hrun sem skók samfélagið og við erum enn að upplifa afleiðingar þess. Þegar við skoðum þessar breytingar í samhengi við þann áfanga að ná saman fjárlögum fyrir hvert ár og síðan skattstofna þar að lútandi er mjög mikilvægt að við horfum til baka á alla heildina og orsakir þess að við upplifðum eitt stærsta bankahrun heimssögunnar. Það er eins og fólk haldi að við séum komin niður á einhvern botn og séum að fara að spyrna okkur upp en það á að spyrna okkur upp á þann hátt að ótrúlega margir verða eftir.

Stærsta viðfangsefnið sem hvert samfélag glímir við er heilbrigðiskerfið og heilbrigðiskerfið var, eins og við í Hreyfingunni vöruðum oft fyrrverandi ríkisstjórn við þegar hart var skorið niður þar, þá þegar komið að fótum fram. Á hverju ári sem skorið var meira því veiklaðra varð það. Það var lítið hlustað á okkur í minni hlutanum þá varðandi heilbrigðiskerfið og það er lítið hlustað á okkur í minni hlutanum nú. Því virðist oft sem það skipti kannski ekki endilega máli hver heldur um stjórnartaumana, en það er þó veigamikill munur á sem ég tel mig hafa fulla heimild til þess að benda á, hafandi verið í minni hluta með báðum þessum stjórnum og hef ekki átt aðild að mikilvægum og meiri háttar stórum ákvörðunartökum sem hafa áhrif á líf allra Íslendinga. En hér varð hrun og það eru ástæður fyrir því að það hrun var. Það var búið að hola að innan okkar sameiginlegu grundvallarinfrastrúktúra, það var búið að hola innan heilbrigðiskerfið og var byrjað að fara í leiðangur með að einkavæða skólakerfið að hluta. Og ég hef einhvern veginn mjög sterklega á tilfinningunni og hef séð það bæði fyrir hrun og núna að hér standi til að við fáum sama heilbrigðiskerfi og þeir eru með í Bandaríkjunum.

Ég hef búið í Bandaríkjunum, ég hef búið mjög víða um heim og Bandaríkin er eini staðurinn i heiminum sem ég hef verið búsett á þar sem ég óttaðist ekkert meira en að lenda á spítala. Ég man eftir því að maðurinn minn heitinn fékk flogakast og lenti á spítala og þó að ég segði að það væri óþarfi var hann tekinn þangað svo ég gæti ekki farið í málsókn gegn einhverjum ef hann færi ekki í sjúkrabílnum. Reikningurinn sem við fengum út af þessum hálfa degi á spítala var ótrúlega hár. Ég veit því hvað það kostar að vera með þannig kerfi. Ég átti vinkonu sem lenti í því að eignast fyrirbura úti í Bandaríkjunum og reikningurinn sem hún fékk var ótrúlega hár. Það eru tölur sem maður getur ekki gert sér í hugarlund. En kerfið er samt byrjað að verða þannig hér. Ekki mundi ég vilja óska neinum þess að fá krabbamein og þurfa, ofan á það mikla álag sem því fylgir, að greiða mjög háar upphæðir til þess að geta farið í meðferð. Þetta er ekki það Ísland sem ég hélt að við byggjum í og þetta er ekki það Ísland sem ég vil að við búum í, og ég veit að almenningur vill það ekki. Almenningur er tilbúinn til að borga jafn háa skatta og við gerum til þess að við getum fengið heilbrigðisþjónustu sem var einu sinni þannig að maður gat montað sig yfir því að það væri alveg sama þó að almúgamanneskjan ég lenti inni á spítala eða forsetinn, við mundum fá nákvæmlega sömu meðferð. Það er ekki þannig lengur út af því að fólk sem á litla fjármuni veigrar sér við því að fara og fá læknaþjónustu. Það veigrar sér við því að fara í skoðun og fer oft ekki og leitar sé hjálpar fyrr en það er orðið verulega veikt, sem er mjög slæmt því að inngrip fyrr í ferlið ætti að sjálfsögðu að vera eitthvað sem við ættum að leggja ríka áherslu á.

Við vorum búin að byggja upp, með blóði, svita og tárum forfeðra minna, sterka verkalýðshreyfingu og við höfum áunnið okkur ótrúlega mikið af réttindum sem var barist hart fyrir, það var miklu fórnað. Það var miklu fórnað til þess að við gætum nýtt okkur heita vatnið til að hita upp húsin, það var meiri háttar stórpólitísk ákvörðun, það var miklu fórnað til þess að við gætum haft rafmagn, til þess að við gætum haft heilbrigðiskerfi og menntakerfi sem við gætum verið þokkalega ánægð með miðað við hvað við erum fá. Það má nefnilega ekki gleymast að við erum rosalega rík þjóð, og þess vegna finnst mér svo sárt að horfa upp á það að bilið á milli þeirra sem eiga allt og eiga ekki neitt stækkar stöðugt.

Sú stefna sem kristallast í því sem ríkisstjórnin ætlar að koma í gegn sem ramma um hvernig eigi að afla peninga og útdeila þeim er ekki í samræmi við þá sjálfsmynd sem þjóðin hefur af sér. Sjálfsmyndin kristallast til dæmis í skoðanakönnunum þegar tekið er saman hvernig fólk vill að við meðhöndlum peninga þeirra. Það er ekki eins og að við á Alþingi eða í fjármálaráðuneytinu eigum þessa peninga. Okkur er treyst fyrir því að fara vel með peninga almennings, peninga sem við tökum af launum fólks sem hefur lagt mikið á sig til þess að geta tekið þátt í að fjármagna sameiginlega sjóði okkar. En stundum upplifir maður það, þegar maður horfir á hvernig þeim peningum er útdeilt, að þeir háu herrar og frúr sem fara með útdeilingarvaldið séu ekki í neinum tengslum við þann veruleika sem fjöldamargir Íslendingar búa við. Og það sem ég óttast er að það er verið að skera inn í — ja, það er eiginlega orðið mjög úrelt að segja inn í merg, en það er verið að skera niður í öll veikustu lögin, inn í taugakerfið á því sem skilgreinir okkur sem þjóð. Ég er alin upp í sjávarþorpi og maður var mjög meðvitaður um hvað það væri að vera sjómaður. Það er háskalegt starf. Það að verið sé að fara inn í tryggingakerfið og skerða réttindi þeirra sem eru í erfiðisvinnu og breyta okkur í litlu Ameríku finnst mér ömurleg þróun. Það finnst mér vera mikil vanvirðing við allt það fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni sem hefur einmitt lagt svo mikið inn í okkar sameiginlegu sjóði.

Það sem ég sé núna er að við erum ekki komin í eitthvað 2007 heldur eitthvað miklu verra. Við erum komin inn í tímabil þar sem ég upplifi eitthvað sem ég upplifði aldrei 2007 eða í hruninu. Það er alltaf að leita til mín fólk þegar ég er úti á götu, úti í búð, í tölvupósti, í síma, sem er hrætt. Það er hrætt. Og það finnst mér mjög alvarlegt. Hér geisar nefnilega mikill ótti. Það er ekki von sem ég skynja eða hamingja yfir því hvernig heimsmet í kosningaloforði var efnt. Það er ótti við að lögreglan sé að vopnavæða sig. Það er ótti við að verið sé að skerða innviði samfélagsins, verið að brjóta og bramla allt það sem við reyndum að koma okkur saman um að við ætluðum að nýta sem reynslu af hruninu. Það á að rjúfa sáttina um náttúruvernd, það á að fara að láta okkur borga fyrir það að kíkja á Þingvelli. Þetta eru grundvallargildi. Ég hef oft flutt frá Íslandi af því að ég höndlaði ekki að búa hérna, einmitt út af allri þessari spillingu og þeirri óværu sem einhver miðill sagði að væri í þessu húsi og virðist leggjast yfir ráðherrabekkina, en ein af ástæðunum fyrir því að ég hef alltaf komið heim aftur er náttúran, hún togar í mig.

Ég óttast þá slagi sem við eigum eftir að taka undir þessari ríkisstjórn. Ég hef ekki unnið með nema tveimur ríkisstjórnum, fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi. En ég hef þó fylgst með stjórnmálaumræðu lengi og ég hef ekki séð svona rosalega afturför eins og ég upplifi núna í sögunni, ekki síðan ég man eftir mér. Ég man ekki eftir svona. Allt sem við náðum að búa til upp úr hinu algjöra hruni, þegar allt hrundi sem við treystum á, við lögðum svo mikið á okkur, einhver okkar, til að reyna að koma á siðaðra samfélagi þar sem við ætluðum að læra eitthvað af reynslunni, það er verið að rústa þessu öllu núna og verið að rústa því á kostnað alls þess sem við höfum byggt á. Mér finnst þetta svolítið ógnvekjandi, það er eins og öll gildin okkar séu hrunin, eins og það sé bara valtað áfram og yfir allt sem er fallegt og brothætt og viðkvæmt á einhverjum valtarameirihluta ofbeldis.

Ég hélt að við ætluðum að gera eins og við predikum nú oft yfir börnunum okkar, ég hélt að við ætluðum af læra af reynslunni en það er ekki þannig. Það sem hér fer fram núna er svo mikil afturför að ég upplifi það eins og ég sé komin hundrað ár aftur í tímann. Það er vanhelgun á öllu sem er dýrmætt og kært og það er vont að sjá það. Það er valtað yfir viðkvæmustu hópana í þessu samfélagi og af því að þeir geta ekki farið í verkfall eða geta ekki komið hérna fyrir framan þinghúsið vegna þess að þeir eru veikir og gamlir þá er þetta bara látið yfir þá ganga. Mér finnst skammarlegt að búa í samfélagi þar sem það er í lagi og ég fer heim með mikla hryggð í hjarta eftir þessar síðustu tvær vikur í þinginu þar sem við höfum verið að fjalla um þessi mál, því að það er ljóst að það er ekki hlustað (Forseti hringir.) á neitt nema sjálfan sig og heimskur er heimaalinn maður.