144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurninguna. Þetta er mál sem veldur mér miklum áhyggjum. Það er ekki aðeins verið að stytta atvinnuleysisbótatímann og skerða réttindi sem fólk hefur áunnið sér, og það er ekki gert í neinu samtali eða samráði við neinn, það er bara ákveðið að skera þarna mjög djúpt, heldur er líka verið að fyrirbyggja í raun að þetta fólk geti farið í nám. Flestir sem eru á atvinnuleysisbótum eru eldri en 25 ára, þannig að þeir geta ekki farið í framhaldsnám til þess að ávinna sér einhver réttindi.

Það er staðreynd að mjög margir úti á landi, sérstaklega þeir sem eru atvinnulausir, segjum bara í Reykjanesbæ, en eiga húsnæði, eiga ekki rétt á bótum frá Félagsmálastofnun. Hvað á þetta fólk að gera? Á það bara að éta lofthænur og teiknaðar kartöflur? (Gripið fram í: Það sem úti frýs.) Það á að éta það sem úti frýs, það er bara þannig. Það hefur aldrei verið eins mikið af fólki á götunni eins og í dag nema kannski síðan í Gúttóslagnum. Tímarnir eru orðnir þannig að það er allt í einu orðið sjálfsagt að fólk eigi ekki neina björg, því eru allar bjargir bannaðar.

Þetta er gert í boði ríkisstjórnar sem lofaði því að hugsa um heimilin í landinu, en það er alveg augljóst að það eru einungis heimili útvalinna, en ekki öll.