144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála því að ójöfnuður hefur aukist. Þær aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir hafa sannarlega leitt til þess að munurinn er að aukast, gliðnunin í samfélaginu er að aukast. Ég held samt ekki að verið sé með þeim hætti að reyna markvisst að leiða til aukinnar stéttaskiptingar í landinu, þvert á móti held ég að báðir þessir flokkar, ég tala nú ekki um Sjálfstæðisflokkinn, hafa stundum logið því að sjálfum sér og jafnvel tekist að gera það í umhverfinu líka að þeir væru öðrum þræði að vinna einnig fyrir verkalýðinn. Það er það sem skýrir hina sterku stöðu Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina fram að síðustu fimm til tíu árum. Það er núna sem Sjálfstæðisflokkurinn er fallinn um deild vegna þess að hann er farinn að sýna þetta miklu naktar en áður. Fyrir það getum við verið þakklát. Þeir eru þó farnir að koma til dyranna eins og þeir eru í reynd klæddir. (Forseti hringir.) Það er breytingin og gerir það auðveldara fyrir fólk eins og mig og hv. skáldkonu og þingmann Birgittu Jónsdóttur að berjast gegn þeirri hugmyndafræði.