144. löggjafarþing — 49. fundur,  16. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[00:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur lengi loðað við íslenskt samfélag að við höfum talað um gjarnan alla aðstoð sem þarf að veita fólki við erfiðar aðstæður sem hálfgerða ölmusu í stað þess, eins og hv. ræðumaður kom inn á í tengslum við atvinnuleysisbætur, að tala um réttindi og samábyrgð eða samhygð.

Hv. þingmaður nefndi ítrekað heilbrigðismálin og mig langar að spyrja hana hvort það sé tilviljun að á sama tíma og búið er að koma heilbrigðiskerfinu í það óefni sem nú er, læknaverkfallið fer að bíta verr og verr og læknar eru að gefast upp á veru sinni hér, eru ítrekuð áform um að opna einkarekna lækna- og heilsumiðstöð í Reykjavík á næsta ári. Eru menn ekki bara markvisst að stefna að tvöföldu heilbrigðiskerfi, eins og hv. þingmaður lýsti að hún hefði áhyggjur af eftir reynsluna frá Bandaríkjunum? Er ekki ljóst og leynt verið að einkavæða?