144. löggjafarþing — 49. fundur,  16. des. 2014.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

423. mál
[00:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem fram kemur í nefndarálitinu enda átti ég þátt í að ganga frá því á sínum tíma. Þetta mál ber að með þeim hætti að í raun er verið að útvíkka heimildir ofanflóðasjóðs til að leggja fé í rannsóknir og hættumat sem er utan við hið hefðbundna hlutverk sjóðsins. Við yfirferð málsins kom fram að fjárhagsstaða sjóðsins er afar góð og leyfir að farið sé í verkefni af þessu tagi. Ég held að í huga nefndarmanna hafi ekki heldur verið nokkur vafi á því að þörf væri á þeim verkefnum sem þarna er um að ræða. Út af fyrir sig var því mjög góð samstaða um málið þegar það kom fyrir nefndina. Þetta er eftir því sem ég man best í annað skipti sem heimildir ofanflóðasjóðs eru rýmkaðar að þessu leyti. Það var líka gert á síðasta kjörtímabili og með sama hætti var þá samstaða um að fara í útvíkkun á þessu tagi.

Við það tækifæri og eins þegar málið kom til umræðu í nefndinni núna veltum við fyrir okkur hvort þörf væri á að fara í heildarendurskoðun á markmiðum og hlutverki sjóðsins þannig að ekki væri verið að taka ákvarðanir af þessu tagi í einstökum tilvikum, smáútvíkka starfsemina, heldur hvort það væri ástæða til að fara í heildarendurskoðun löggjafarinnar þannig að form löggjafarinnar væri með þeim hætti að um væri að ræða sjóð sem hefði það hlutverk að styrkja hættumat og rannsóknir sem varðaði hvers konar náttúruvá. Fram komu sjónarmið um að rétt væri að taka málin í ákveðnum skrefum, ekki allt of stórum, og á það féllst nefndin. Ég velti hins vegar áfram fyrir mér hvort tilefni sé til að endurskoða löggjöfina þannig að bæði við gjaldtöku og úthlutun verði horft með víðari hætti en bara á ofanflóðin og hitt sett fram sem undantekningar og einstök tilvik en tek þó fram að ég geri ekki athugasemdir við þessa afgreiðslu vegna þess að, eins og fram kom, fjárhagsstaða sjóðsins er það góð að þarna er um að ræða nokkuð sem sjóðurinn getur með góðu fjármagnað án þess að það komi með nokkrum hætti niður á möguleikum hans til að bregðast við þeim aðstæðum sem telja má að séu aðalhlutverk hans. Svo eru þau verkefni sem vísað er til í þessu máli vissulega þess eðlis að full ástæða er til að leggjast í athuganir og hættumat af því tilefni ekki síður en gagnvart hinum hefðbundnu ofanflóðum.

Ég vildi í þessari umræðu bara leggja það inn að menn héldu áfram að velta fyrir sér hvort þörf væri á að forma löggjöfina með almennari hætti en gert er en geri ekki athugasemdir við þessa afgreiðslu við þetta tækifæri.