144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú líður að lokum umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og ljóst að okkur hefur ekki orðið jafn mikið ágengt og við í Vinstri grænum hefðum kosið. Það er ekki úr vegi að velta fyrir sér enn og aftur því átakamáli sem við höfum verið að fjalla um hér, Ríkisútvarpið.

Það líður að áramótum og eitt af því sem verður til þess að flestir setjast fyrir framan ríkissjónvarpið er að horfa á áramótaskaupið, sumir horfa á ávarp forsætisráðherra og aðrir á ávarp forseta á nýársdag. Ég velti auðvitað fyrir mér innlendri dagskrárgerð, hún kostar töluverða peninga, hún er það sem við erum flest öll afar stolt af. Hvað verður það sem lætur undan? Burt séð frá öllum krónum og aurum, burt séð frá því hversu hátt gjaldið á að vera eða ekki, þá liggur fyrir að fram undan eru miklar breytingar. Hvað verður það sem lætur undan? Eru það dýrustu þættirnir okkar sem eru íslensku þættirnir og þeir sem ég nefndi áðan? Er það Stundin okkar? Er það Orðbragð eða Kastljósið? Eða kannski íþróttafréttirnar, veðurfréttirnar, eða hvað annað?

Það er nefnilega ansi margt sem við teljum vera sjálfsagðan hlut í almannaútvarpinu sem okkur er ekki færður annars staðar. Þess vegna finnst mér ástæða til þess að við förum að sjá það svolítið fyrir okkur hvað það verður sem mun gefa eftir. Öll stjórn Ríkisútvarpsins er sammála um að fram undan eru verulegar breytingar á dagskrárgerð og dagskránni og þá skiptir ekki máli í hvaða pólitísku flokkum stjórnarmenn eru, stjórnin kemur fram öll sem ein og starfsmennirnir líka.

Virðulegi forseti. Ég hef af þessu miklar áhyggjur og að við sjáum vinsæla þætti til áratuga jafnvel gefa eftir.