144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það eru engin geimvísindi, hvað þá í mannauðsstjórnunarfræðum, að það sem lamar starfsemi stofnana er óvissa, óvissa um framtíð, stöðu og starfa, fólk verður óstarfhæft og vanlíðan eykst. Þetta virðist vera takturinn þessi missirin í stofnunum sem reknar eru af ríkisvaldinu. Fiskistofa, Landspítalinn, RÚV, Rarik, Landhelgisgæslan, framhaldsskólar landsbyggðarinnar og það að draga til baka yfirfærslu lögregluembættisins á Höfn í Hornafirði frá Austurlandi yfir á Suðurland en það ferli var komið á lokapunkt. En skýrasta dæmið sem er hvað lengst komið og er skýrt dæmi um vangetu framkvæmdarvaldsins til að standa í svona yfirfærslum sem snerta lífsviðurværi og framtíð fólks er sýslumaðurinn í Hafnarfirði og Kópavogi. Nú er verið að sameina sýslumannsembættin í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Hjá sýslumannsembættinu í Hafnarfirði og Kópavogi sitja í dag 17 starfsmenn í mikilli óvissu um framtíð sína. Þeir vita ekkert hvað er að fara að gerast og eiga eftir níu vinnudaga þar til sameiningin á sér stað. Þeir fá engin svör og vita ekki við hvað þeir munu starfa, þ.e. ef þeir fá starf. Óhætt er að fullyrða að þessar stofnanir eru lamaðar. Það að senda starfsmenn inn í jólin með þessa vanlíðan er ríkisvaldinu ekki til sóma og til stendur að standa í slíkum sameiningum á komandi missirum á færibandi. Hér er um að ræða lifandi manneskjur. Þetta eru jólakveðjurnar frá vinnuveitandanum. Ég vil með þessum orðum hvetja þá sem standa að þessari sameiningu að taka sér tak og sinna starfi sínu og veita starfsfólkinu svör.