144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það á ekki af okkur að ganga undir þessari ríkisstjórn. Ég held svei mér þá að veðrið hafi ekki verið svona skítlegt í jólamánuðinum síðan á dögum viðreisnar. (Gripið fram í.)

En að öðru. Ég ætlaði að ræða (Gripið fram í.) örlítið menningarpólitík ríkisstjórnarinnar og viðhorf hennar til menningar og fjölmiðla. Það þarf ekki að ræða um atlöguna að Ríkisútvarpinu og ofsóknirnar sem Ríkisútvarpið hefur sætt. Við þekkjum bókaskattinn og menningarskattinn og tilræðið við menninguna í formi þess að auka þar álögur á sama tíma og smánarlegir fjármunir eru lagðir í sjóði til styrktar menningu og sumir skornir við trog eins og myndlistarsjóður. En öllu alvarlegra er þó það viðhorf sem birtist í stanslausum árásum á fjölmiðla og fjölmiðlamenn þar sem þeir eru hundeltir fyrir það að segja fréttir, sérstaklega ef það eru fréttir af ríkisstjórninni. Sérstakur almannatengill á launum frá almenningi vinnur við það í Stjórnarráðinu að reyna að stýra umfjöllun fjölmiðla um forsætisráðherrann og ríkisstjórnina. Þetta er sannað og er á prenti. Hvert er þetta viðhorf að leiða okkur? (Gripið fram í: … fréttir …) Ég velti því fyrir mér hvert stjórnarmeirihlutinn er að fara í þessum efnum (Gripið fram í.) varðandi menningu og fjölmiðla. Gjammar nú fram í fjölmiðlamaðurinn sem greinilega þykir þetta allt í lagi. (Gripið fram í: Það veitir ekki af.) Staðreyndin er sú að það eru áratugir síðan svona viðhorf hafa sést í umræðu á Íslandi, að menn ætli beinlínis að kúska fjölmiðla til hlýðni, berja þá niður með fjárhagssvipu eða með því að vera með menn á launum við það að reyna að koma í veg fyrir að fluttar séu hlutlægar fréttir af ríkisstjórninni, sem vissulega eru ekki allar góða enda ekki efni til. Þannig er það nú.

Svo vil ég segja við hv. þm. Ásmund Friðriksson að það kemur úr hörðustu átt að sjálfstæðismaður, sem vissulega segist hafa gagnrýnt sína flokksfélaga á síðasta kjörtímabili, skuli tala hér á þingi um málþóf þegar við erum í þann veginn að ljúka störfum 16. desember, óvenju snemma. Hér hafa þingstörf gengið óvenju greiðlega fyrir sig. (Forseti hringir.) Það er eins fráleitt og nokkuð getur verið að tala um slíkt.