144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Afnám vörugjalda er mjög jákvætt skref og það er jákvætt að verið sé að lækka efra þrep virðisaukaskattsins en það er afleitt að það sé verið að fjármagna þessar jákvæðu aðgerðir með hækkun á skatti á mat og menningu. Við styðjum því ekki þetta frumvarp. Við fögnum breytingartillögum við frumvarpið sem nú eru komnar frá efnahags- og viðskiptanefnd um að framlengja ívilnanir fyrir bíla sem nýta umhverfisvænt eldsneyti. Ég vil eins og fyrri ræðumaður vekja athygli á breytingartillögu frá okkur í minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um að taka upp sykurgjald. Við höfum deilt um það svolítið í þessum sal hvort gjald á sykur þjóni lýðheilsumarkmiðum eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að vel útfært gjald þjóni lýðheilsumarkmiðum en við deilum ekki um tekjurnar. Þær eru þarna og þær eru 3 milljarðar. Við leggjum til að halda áfram að skattleggja neyslu á viðbættum sykri og láta þann pening (Forseti hringir.) renna til heilbrigðisþjónustunnar í landinu.