144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér er náttúrlega skapi næst, úr því að það er verið að hræra í fyrirsögn frumvarpsins á annað borð, að leggja til að það heiti frumvarp til laga um matar- og menningarskatt ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Út af fyrir sig er það rétt ábending sem kom fram á lokasprettinum að það þarf að laga fyrirsögn frumvarpsins, m.a. í ljósi þess að það gerðist eins og stundum áður að kaflar í mörgum öðrum lögum voru teknir upp og opnaðir við 2. umr. og þeim breytt. Ég minni bara á að þetta hefur aldrei þótt sérstaklega góð aðferðafræði en það leiðir til þess að fyrirsögn frumvarpsins, eins og það kom upphaflega fram, var allt of takmarkandi og gaf ekki í skyn þær víðtæku lagabreytingar hér og þar í lagasafninu sem leiða af þessu vinnulagi.