144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við lok þessarar atkvæðagreiðslu er ástæða til að biðjast undan þeim hringlandahætti sem er í skattstefnu ríkisstjórnarflokkanna. Hér var verið að hækka matarskattinn sem þessir sömu flokkar beittu sér fyrir að yrði lækkaður úr 14% í 7%, nú með alveg nýjum rökum um að það yrði að hækka hann aftur í 12%. Þegar það var komið inn í þingið var hins vegar horfið frá því og ákveðið að lækka töluna í 11% en því var lýst yfir í fjárlagafrumvarpinu að á næsta ári ætti að hækka hann í 14%. Síðan lýsti fjármálaráðherra því yfir hér á föstudaginn að hann væri hættur við að hækka hann á næsta ári í 14%.

Svona hringlandaháttur í skattapólitík er algerlega óþolandi en við hljótum þó að fagna og lýsa yfir sigri í því að hæstv. fjármálaráðherra sé fallinn frá því að hækka skattinn í 14% eins og boðað var í fjárlagafrumvarpinu. Það er þó að minnsta kosti áfangasigur fyrir heimilin í landinu.