144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[11:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Á erfiðustu tímum í sögu lýðveldisins þurfti að grípa til margra erfiðra aðgerða en það er ótrúlegt að sjá ríkisstjórn sem fær ríkissjóð í plús standa fyrir þeirri aðför að atvinnulausum og þeim skattahækkunum á sjúklinga sem er að finna í þessu frumvarpi. Við höfum varað sterklega við því og greitt atkvæði gegn einstaka greinum sem að því lúta en munum sitja hjá við málið í heild sinni enda nauðsynlegt að það nái fram að ganga sem hluti af afgreiðslu fjárlaga, en þau eru á ábyrgð meiri hlutans.

Eitt dæmi um hringlandaháttinn og reynsluleysið á stjórnarheimilinu er hvernig hér hefur verið farið með örorkubyrði lífeyrissjóðanna. Það er auðvitað ótrúlegt að ríkisstjórninni skuli hafa dottið í hug að sneiða sérstaklega að lífeyrissjóðum erfiðisvinnufólks með því að ætla að draga úr stuðningi við þá vegna mikillar örorkubyrði. En um leið og hún hafði lagt það fram uppgötvaði hún að hún hafði óvart spillt (Forseti hringir.) friði á vinnumarkaði. Síðan hefur hún í þrígang komið með breytingartillögur við þessa vondu og vitlausu tillögu (Forseti hringir.) sem verður aldrei að neinu en hangir samt inni og spillir friði á vinnumarkaði.