144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[11:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það má búast við því að fagnaðarlæti stjórnarliða verði ekki eins umfangsmikil núna og þegar þeir glöddust yfir auknum álögum á almenning gegnum hækkaðar álögur á mat og menningu. Hér er annað upp á teningnum, hér er ósköp dapurleg birtingarmynd af metnaðarleysi hæstv. ríkisstjórnar sem birtist til dæmis í því að stytta nú atvinnuleysisbótatímabilið um hálft ár og setja 1 þús. manns +/- út á kaldan klakann um áramótin og á næstu sex mánuðum, hóp í ákaflega veikri stöðu. Að þess skuli þurfa nú þegar þó þetta mikið betur er farið að ganga í samfélaginu og atvinnuleysið orðið mun viðráðanlegra er alveg með endemum. Svipað má segja um það að krukka í greiðslur frá ríkinu til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða, skerða Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, hækka kostnað vegna S-merktra lyfja, framlengja ekki átakið Allir vinna o.s.frv.

Breytingartillögur við þetta frumvarp við 3. umr. sem efnahags- og viðskiptanefnd flytur saman eru hins vegar allar til bóta eða hlutlausar og þess vegna stöndum við að þeim og munum greiða flestum liðum þeirra atkvæði. (Forseti hringir.) Frumvarpið er eftir sem áður í heild sinni ekki ásættanlegt og við greiðum atkvæði gegn því.