144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[11:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég auglýsi eftir stjórnarliðum til að koma hér upp og þakka atvinnulausum, sem nú er verið að skerða bótaréttinn hjá, og langveiku og alvarlega veiku fólki sem lyfjakostnaður er að hækka hjá. Mér fyndist rétt að stjórnarliðar kæmu hingað og þökkuðu þessu fólki fyrir að gera þeim mögulegt að afnema vörugjöld í landinu. Það eru þessir hópar sem færa okkur þessa jólagjöf, þessir hópar sem hærri matarskattur bitnar helst á. Ég sakna þess að það sé engin iðrun eða að minnsta kosti þakklæti fyrir að til sé fólk sem stjórnarliðum finnst sjálfsagt að beri þessar byrðar fyrir aðra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)