144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[11:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér sér meiri hlutinn aðeins að sér og hefur ákveðið að draga úr þeirri miklu lækkun á stuðningi við endurnýjun bílaleigubílaflotans sem hefur undanfarin ár falist í því að virðisaukaskattur væri felldur niður upp að vissu marki við endurnýjun á bílum. Breytingartillagan, sem meiri hlutinn kom með á síðustu stundu inn í efnahags- og viðskiptanefnd rétt fyrir lok umfjöllunar um málið fyrir 2. umr., gekk út á að helminga þennan stuðning á einu bretti með örfárra vikna fyrirvara og auðvitað sáu menn að sér, það væri svo harkalegt að það gæti varla gengið. Betur að menn hefðu verið jafn skilningsríkir á fleiri sviðum eins og til dæmis í garð atvinnulausra. Bílaleigurnar nutu þó þessa skilnings hjá ríkisstjórninni að það er hörfað með þetta aftur upp í 750 þús. kr. Aðalgallinn fyrir utan skerðinguna er hversu fyrirvaralaust þetta gerist, samanber það að bílaleigur og ferðaskrifstofur hafa almennt gengið frá gjaldskrám fyrir næsta ár. Þess vegna er ósanngjarnt að láta þetta koma með svona stuttum fyrirvara en breytingin er þó til bóta.