144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[12:00]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég er afskaplega þakklát og glöð yfir því að við skulum vera komin þetta langt með þennan ívilnunarsamning og ég þykist fullviss um að ekkert muni stoppa verkefnið. Ég get tekið undir hvert orð sem hv. þm. Kristján Möller hafði hér um þessa uppbyggingu og það ferli sem hefur átt sér stað. Það er alveg rétt að Húsvíkingar og nærsveitarmenn hafa lengi beðið eftir því að þessi uppbygging yrði að veruleika. Við bíðum enn um stund en sá dagur kemur fyrr en seinna að hafist verður handa við að byggja upp atvinnustarfsemi á Bakka. Það verður mikil lyftistöng fyrir Þingeyjarsýslur allar og þess vegna víðar.

Við erum núna að fá göng á milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu sem þýðir stækkun atvinnusvæðis og það verður auðveldara að fara um stærra atvinnusvæði alveg nákvæmlega eins og álverksmiðjan á Reyðarfirði hafði það í för með sér að atvinnusvæðið stækkaði þar. Menn sjá ekki neinn vankant á því þó að þeir þurfi að fara um einhvern veg til að komast til vinnu. Það verður eins hjá okkur og við getum alveg átt von á því að Eyfirðingar muni leita til Húsavíkur eftir atvinnu.

Það er mikið mál fyrir okkur Húsvíkinga og Þingeyinga að þessi atvinnustarfsemi komist sem fyrst af stað. Ég tel eins og hv. þm. Kristján Möller að þó að ESA leiti eftir nánari skýringum muni það ekki verða til þess að málið falli niður. Við munum sjá uppbyggingu á Bakka.