144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[12:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir þó nokkuð mörgum árum ákváðu Þingeyingar í fullu samstarfi við aðra Norðlendinga að vinna að uppbyggingu við Bakka á Húsavík. Hugsunin var að nýta þá orku sem finnst heima í héraði til að skapa störf fyrir svæði sem hefur þurft að þola töluverðan missi starfa sem hefur því miður leitt af sér brottflutning einstaklinga. Ég hef verið mikill stuðningsmaður þessa verkefnis. Við þingmenn kjördæmisins alls höfum barist saman fyrir þessu í hvaða flokki sem við erum. Ég gagnrýndi það reyndar harkalega á sínum tíma þegar ákveðið var að fara í hið svokallaða sameiginlega mat sem gerði það að verkum að verkefnið tafðist í eitt til tvö ár og var afar ósáttur við það á þeim tíma. Heimamenn hafa hins vegar unnið vel að þessu verkefni. Þeir hafa sýnt þrautseigju, dugnað og skynsemi og unnið í alla staði mjög faglega að þessu máli.

Nú liggur fyrir að ESA hefur samþykkt annars vegar þann fjárfestingarsamning sem ríkið gerði um uppbyggingu á þessu svæði sem og þau lög sem voru staðfest á Alþingi um uppbyggingu innviða á Bakka. Það er mjög mikilvægt að þessu sé haldið til haga í umræðunni. Það sem er núna á seyði er í rauninni nokkuð sem við ættum bara að bíða og sjá hvað verður úr. ESA kallar eftir upplýsingum um raforkusamninga á milli Landsvirkjunar og PCC og kannar stöðu þess samnings. Við þetta blandast að sjálfsögðu raforkusamningur við Landsnet um flutning á raforkunni, en það er eingöngu verið að kalla eftir upplýsingum. Það sem ég vildi hins vegar segja er að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þetta mál geti haldið áfram á þeim dampi sem það hefur verið á að undanförnu. Ég er mjög bjartsýnn á að við munum sjá fyrr en seinna glæsilega uppbyggingu á Bakka við Húsavík, uppbyggingu sem getur skapað mörg störf og mikinn hagvöxt á svæði sem hefur þurft að þola ýmis áföll. Þetta verður ekki bara til styrkingar fyrir Húsavík og Þingeyjarsýslur heldur Norðurland allt, ég tala nú ekki um þegar Vaðlaheiðargöng verða orðin að veruleika og við getum horft upp á sameiginlegt atvinnusvæði í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslunum, svo ekki sé minnst á hversu mikil búbót þetta verður fyrir ríkissjóð. Þetta er atvinnustarfsemi sem mun skila hagnaði, auknum tekjum í ríkissjóð og vonandi hagvexti á landinu öllu. Eins og ég segi, ég er mjög bjartsýnn á að þetta muni halda áfram eins og það hefur gert og að það sé ekkert í veginum að PCC og fleiri fyrirtæki geti hafið þar uppbyggingu fyrr en seinna.