144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en við erum að fjalla um framlengingu á heimild til handa ráðherra til að skrifa undir ívilnandi samning vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka. Vegna þess hve hættulega lítil fjárfesting er á landinu, og fjárfesting er það sem við munum lifa á í framtíðinni, börnin okkar munu borga skattana og ellilífeyrinn okkar, verðum við að gera eitthvert átak í því að örva fjárfestingu. Við ættum að skoða þessa samninga því að í þeim er akkúrat dæmi um það við hvaða aðstæður atvinnulífið gæti lifað. Það er greinilegt að umhverfi atvinnulífs á Íslandi er þannig að það er enginn áhugi eða hvati til fjárfestinga, hvorki í skattalögum né reglugerðarumhverfi fyrirtækja sem oft er mjög íþyngjandi eða því hvernig ríkið býr að umhverfi fyrirtækja með ljósleiðurum og öllu slíku.

Ég skora á þær hv. nefndir þingsins sem fjalla um atvinnulífið, efnahags- og viðskiptanefnd, atvinnuveganefnd og fleiri, að skoða þessa samninga og sjá hvort við getum ekki létt einhverjum álögum af íslensku atvinnulífi þannig að hér brotni hlekkir sem halda því niðri og það fari aftur að fjárfesta.