144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti fyrir 3. umr. frá meiri hluta fjárlaganefndar. Undir nefndarálitið skrifa auk mín hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Benediktsson, Karl Garðarsson og Valgerður Gunnarsdóttir.

Virðulegi forseti. Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar eftir að það gekk öðru sinni til hennar þann 10. desember sl. Nefndin hefur fengið fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins á sinn fund, auk fulltrúa Isavia vegna fyrirhugaðra arðgreiðslna í ríkissjóð og 13 fulltrúa frá Ríkisútvarpinu og svo síðast fulltrúa Bankasýslunnar ásamt, eins og áður sagði, fulltrúum frá fjármálaráðuneytinu. Þá hefur nefndin aflað viðbótargagna frá ýmsum ríkisaðilum í þessari vinnu.

Við meiri hlutanum gerum tillögu um eina breytingu á tekjuáætlun fjárlaga í samræmi við tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um að endurskoða ívilnun bílaleigufyrirtækja vegna bifreiðainnflutnings þar sem lækkun á vörugjaldi verði ekki meiri en sem nemur 750 þús. kr. á hverja bifreið, en við 2. umr. var gert ráð fyrir að lækkunin gæti mest numið 500 þús. kr. á bíl. Tekjutap ríkissjóðs af þessum sökum er metið um 380 millj. kr.

Einnig eru gerðar nokkrar tillögur um breytingar á öðrum hlutum frumvarpsins.

Í breytingartillögu við 2. gr. um sjóðstreymi er gert ráð fyrir að lántökur lækki um 20 milljarða kr. og þær verði 60 milljarðar kr. í stað 80 milljarða kr. Þá er gert ráð fyrir að afborganir lána lækki um 2,8 milljarða kr. Nú er miðað við að ganga á handbært fé ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands í stað lántöku. Minni afborganir stafa einkum af uppkaupum ríkisbréfa og breyttum gengisforsendum.

Í breytingartillögu við 5. gr. sem fjallar um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir er lagt til að heimild til lántöku breytist úr 80 milljörðum kr. í 60 milljarða kr. og er það til samræmis við áform um minni lántökur.

Lagt er til að við 6. gr. bætist heimild til handa fjármála- og efnahagsráðherra til að ganga til samninga við Vaðlaheiðargöng hf. um flutning á rúmlega 200 þúsund rúmmetrum af efni úr Vaðlaheiðargöngum á væntanlegt flughlaðssvæði við Akureyrarflugvöll.

Í breytingartillögum við sundurliðun 4 (fjármál lánastofnana í C-hluta) felast einungis smávægilegar lagfæringar.

Meiri hlutinn leggur einnig fram nokkrar tillögur um breytingar á gjaldahlið fjárlaga sem fela í sér að gjöldin hækki um 325,2 millj. kr. Svo er nokkuð áberandi hér í þessum breytingartillögum endurmat á verðlagsforsendum átta liða sem láðist að gera grein fyrir í 2. umr., en þarna er um að ræða að ýmsir sjóðir verða færðir með öðrum hætti í bókhald ríkisins.

Niðurstaða fyrir 3. umr. fjárlaga er sú að afgangurinn sem lagt var af stað með í byrjun hefur lækkað örlítið og er þá heildarjöfnuður áætlaður 3.578,6 millj. kr. sem er, eins og ég sagði áðan, örlítið lægri en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Við í meiri hlutanum viljum vekja athygli á nokkrum málum án þess að gera sérstakar breytingartillögur sem varða þau og ég bendi á að hér má finna þær breytingartillögur sem við leggjum fram. Hæst ber þar að nefna að við leggjum til að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni fái fyrir 3. umr. 100 millj. kr., ekki veitir af. Við leggjum áherslu á kynferðisafbrotamál sem er raunverulega verið að ljúka því að mörg þeirra mála sem fóru af stað eftir átak sem byrjaði 2012 eru komin á ákærustig, þannig að við erum að vinda ofan af þeim halla. Svo er einnig lagt til að lagt verði meira í málaflokkinn Hælisleitendur vegna þess að farið var í átak til þess að hælisleitendur þyrftu ekki að bíða úrlausna eins lengi. Þetta átak gekk vel. Nú verða hælisleitendur ekki fyrir eins miklum mannréttindabrotum vegna málshraða því að ferlið gengur hraðar fyrir sig og talið var að þyrfti örlitla uppbót upp á 50 milljónir til þess að láta þetta ganga enn hraðar fyrir sig svo hægt væri að vinna upp þann hala sem er á málaflokknum.

Meiri hlutinn fer yfir það í textanum sem hann vill vekja athygli á. Í fyrsta lagi vekjum við athygli á málefnum Íbúðalánasjóðs en til viðbótar við fjárhagsvandræði sjóðsins sem lýst er í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umr. hefur nefndin fengið rekstraráætlanir til næstu fimm ára í hendurnar. Þar kemur meðal annars fram að gert er ráð fyrir að árlegt tap á rekstri sjóðsins verði um eða yfir 3 milljarðar kr. og að uppsafnað tap yfir tímabilið nemi um 15 milljörðum kr. Þar af nemur virðisrýrnun útlána rúmlega 9 milljörðum kr. Þegar nánar er rýnt í forsendur áætlunarinnar sem Íbúðalánasjóður hefur skilað af sér er vaxtamunur sjóðsins svo lítill að hann skilar einungis tæplega 1 milljarði kr. upp í rekstrarkostnað sem nemur um 3 milljörðum kr. á ári. Vandamál sjóðsins liggja þannig í þáttum eins og ófullnægjandi vaxtamun, vanskilum skuldara og afskriftaþörf veittra lána sem leiða til kostnaðarsamra yfirtöku fullnustueigna.

Undanfarin ár hafa fjármálastofnanir sem starfa á markaðsforsendum aukið verulega hlutdeild sína í lánveitingum til húsnæðislána og ætla má að í ár mæti þær ásamt lífeyrissjóðum stærstum hluta af þessari lánsfjárþörf. Í ár stefnir í að lánveitingar Íbúðalánasjóðs nemi einungis um 7 milljörðum kr. en uppgreiðslur eldri lána nemi um 27 milljörðum kr. Sjóðurinn veitti einungis 246 almenn íbúðalán á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 en slík lán voru 468 á sama tímabili 2013. Þessi þróun bendir til þess að hlutverk sjóðsins á íslenskum húsnæðislánamarkaði fari hratt minnkandi.

Framlög til sjóðsins hafa numið 53,5 milljörðum kr. frá árinu 2009 og allt of lengi hefur dregist að stjórnvöld uppfylli þá skyldu sína að grípa til aðgerða sem hafa það að markmiði að draga úr hallarekstri sjóðsins og áhættu í rekstri hans. Meiri hlutinn hyggst fylgja því eftir strax í byrjun næsta árs að knýja á um að gripið verði þegar í stað til aðgerða til að stöðva áframhaldandi taprekstur Íbúðalánasjóðs.

Í öðru lagi hafa fjárhagsmálefni Ríkisútvarpsins verið til skoðunar hjá nefndinni. Meiri hlutinn telur mjög mikilvægt að sem allra fyrst verði brugðist við skuldavanda þess. Ljóst þykir að á næstu árum verði miklar breytingar á rekstrarumhverfi fjölmiðla. Meginmarkmið aðgerða ættu að vera að standa vörð um framleiðslu á innlendu dagskrárefni, menningarhlutverki Ríkisútvarpsins og almannaþjónustu jafnframt því að ná rekstrarlegu jafnvægi. Til þess að svo megi verða er óhjákvæmilegt að leita nýrra leiða í grunnþáttum stofnunarinnar, svo sem framleiðslu dagskrárefnis, húsnæðismálum og rekstri dreifikerfis. Samþætting fjölmiðla við aðra afþreyingu með breyttum fjarskiptum skapar ný tækifæri við miðlun á efni en um leið er nauðsynlegt að Ríkisútvarpið marki sér sérstöðu við hæfi. Meiri hlutinn styður hugmyndir stjórnar Ríkisútvarpsins um algera endurskoðun á húsnæðisþörf og sölu húsnæðisins að Efstaleiti 1. Væntanlegar sölutekjur nema umtalsverðum hluta af vaxtaberandi skuldum félagsins. Þá er rétt að breyta uppgjörsárinu nú þegar þannig að það miðist við almanaksárið eins og tilskilið er í lögum um fjárreiður ríkisins. En fyrir þá sem ekki vita þá miðast rekstrarár Ríkisútvarpsins við 1. september til 1. september, sem er afar bagalegt upp á áætlanir sem félagið þarf að gera á hverju ári.

Ríkisframlag til Ríkisútvarpsins hefur hækkað um 486 millj. kr., eða um 15% á tveimur árum, að meðtalinni tillögu um hækkun á framlagi við 2. umr. Á sama tíma hefur verðbólga verið um 6%. Heildartekjur stofnunarinnar hafa aldrei verið meiri en nú, en á móti vegur að á síðasta rekstrarári hækkuðu almenn rekstrargjöld um 325 millj. kr. milli ára, eða um 7%. Hlutfallslega er hækkunin mest vegna yfirstjórnar, eða 40%, og dreifikerfisins, um 35%. Þegar afskriftum er bætt við rekstrargjöldin er enginn afgangur til að mæta fjármagnskostnaði sem nam 325 millj. kr. Fjárhagsvandi stofnunarinnar á sér fyrst og fremst rætur í gjaldahliðinni frekar en að um tekjuvanda sé að ræða og telur meiri hlutinn enga ástæðu til þess að gera frekari breytingar á framlögum til Ríkisútvarpsins og væntir þess að stjórnin leysi úr fjárhagsvanda stofnunarinnar miðað við þau framlög sem hún fær samkvæmt 14. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Nauðsynlegt er að bæði mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið fylgi þessum málum eftir.

Í þriðja lagi bendir meiri hlutinn á nauðsyn þess að fyrir liggi miklu betri upplýsingar en nú gera varðandi hagnýtingu rammasamninga og útboða. Meiri hlutinn hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum um þessi mál frá Ríkiskaupum, þar á meðal um hve margar stofnanir nýta sér þessar leiðir til þess að ná fram meiri hagkvæmni og sparnaði í rekstri og í hve ríkum mæli. Í ljós hefur komið að nauðsynlegar upplýsingar liggja ekki fyrir. Brýnt er að úr þessu verði bætt á fyrri hluta næsta árs með samstilltu átaki fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Ríkiskaupa þannig að fyrir liggi hvaða stofnanir þurfa að bæta rekstur sinn til þess að tryggt sé að rammasamningar og útboð séu nýtt á sem allra flestum sviðum. Meiri hlutinn hyggst fylgja þessu verkefni frekar eftir á næstu vikum.

Meiri hlutinn bendir einnig á mikilvægi þess að stjórnvöld vinni í samræmi við tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar til þess að ná fram enn frekari sparnaði í ríkisrekstrinum. Fyrir liggja upplýsingar sem benda til þess að sameining stofnana, t.d. heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, geti skilað meira en 5% lækkun gjalda án þess að þjónustan sé skert.

Einnig er nauðsynlegt að stjórnvöld séu stöðugt tilbúin til að selja allar eignir sem ekki nýtast í rekstri ríkisins hverju sinni.

Þá þykir rétt að vekja athygli á tillögu sem samþykkt var við 2. umr. um breytingu á liðnum 06-672 Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta. Skýringartexti með tillögunni hefði átt að vera ítarlegri og geta hefði átt um að til viðbótar þeim flugvöllum sem nefndir eru til sögunnar vegna endurnýjunar búnaðar og uppbyggingar er einnig stefnt að uppbyggingu á Húsavíkurflugvelli. Einnig láðist að nefna að auk endurnýjunar á búnaði flugvallarins á Gjögri er fyrirhuguð framkvæmd við klæðningu vallarins. Þar að auki er gert ráð fyrir að allt að 50 millj. kr. af fjárveitingunni verði nýttar í tengslum við viðbót við 6. gr. fjárlaga þar sem nú er gerð tillaga um heimild til handa fjármála- og efnahagsráðherra til að ganga til samninga við Vaðlaheiðargöng hf. um flutning á rúmlega 200 þúsund rúmmetrum af efni úr Vaðlaheiðargöngum á væntanlegt flughlaðssvæði við Akureyrarflugvöll.

Meiri hlutinn vekur einnig athygli á verkefni sem Landspítalinn hefur lengi stefnt að, þ.e. innleiðingu DRG-kerfis til framleiðnitengingar á fjárframlögum til spítalans. Tækifærið er orðið að veruleika með því að öll ákvæði laga um Sjúkratryggingar Íslands taka gildi nú. Spítalinn hefur unnið að þessu verkefni síðustu 14 árin og telur sig vera tilbúinn að hrinda því í framkvæmd. Hugmyndin er að Sjúkratryggingar geri samning um 25% fjármögnun spítalans eftir DRG-kerfinu, þ.e. framleiðnitengt á árinu 2016, og síðan 55% árið 2017. Mikilvægt er að tryggja sanngjarnan samning um framleiðslu en samkvæmt spítalanum hefur framleiðsla hans í heild, mæld með DRG-einingum, minnkað úr 45.232 árið 2012 í 43.480 árið 2013 þótt rekstrarkostnaður hafa aukist um 1,8 milljarða kr. á sama tíma.

Þá er vakin athygli á því að áform um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju eru óbreytt. Unnið verður að fjármögnunarleiðum samhliða undirbúningi útboðs sem fyrirhugað er á fyrri hluta komandi árs.

Virðulegi forseti. Breytingartillögurnar koma hér á eftir í nefndarálitinu. Eins og ég sagði í byrjun skrifa undir þetta álit auk mín hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Benediktsson, Karl Garðarsson og Valgerður Gunnarsdóttir.

Mér er ljúft og skylt að mæla einnig fyrir breytingartillögu sem ég er flutningsmaður á og snýr að því að millifært verði frá aðalskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á liðinn 09-977 Bankasýsla ríkisins. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að Bankasýsla ríkisins yrði lögð niður um áramótin en nú er ljóst að hún starfar fram á næsta ár. Í frumvarpinu voru fjárheimildir aðalskrifstofu ráðuneytisins hækkaðar um 47 millj. kr. vegna verkefna Bankasýslunnar, en nú er lagt til að 33,6 milljónir verði millifærðar yfir á lið hennar. Fjármála- og efnahagsráðherra hyggst leggja fram frumvarp á vorþingi um meðferð á sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum og er því ætlað að leysa af hólmi lög nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins, og lög nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Fjárveitingunni er ætlað að mæta rekstrarkostnaði Bankasýslunnar í sex mánuði á næsta ári, en endanlegt uppgjör í kjölfar niðurlagningar stofnunarinnar liggur ekki fyrir enn sem komið er og býður því frumvarps til fjáraukalaga á næsta ári. Niðurlagningin var ein af tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sem ég átti sæti í og er gert ráð fyrir að til lengri tíma litið náist að minnka rekstrarkostnað ríkisins með þessari aðgerð. Þegar sú löggjöf um fyrirkomulag á málaflokknum liggur fyrir verða fjárheimildir vegna þessara verkefna endurmetnar, bæði hjá aðalskrifstofu ráðuneytisins og Bankasýslunni og fluttar viðeigandi tillögur í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2015.

Á þskj. 776 sést hvernig hreyfingarnar eru framkvæmdar af aðalskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins yfir á liðinn 09-977 Bankasýsla ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.