144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja formann fjárlaganefndar út í skýringartexta, vegna þess að hér er talað um að meiri hlutinn setji inn skýringartexta og frekari skýringar á framlagi til flugvallaviðgerða úti á landi. Mín spurning snýr að Háskólanum á Akureyri, því sama og ég spurði um við 2. umr. Ég tók því þannig að hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, mundi útskýra það í ræðu sinni um nefndarálitið í 3. umr. Þetta er um þær 30 milljónir sem háskólinn fær á þessu ári en það er mjög merkilegt að meiri hluti nefndarinnar setur inn skilyrði um að 20 milljónir fari í kennslu í heimskautarétti en öll þessi upphæð verður að renna óskipt í rannsóknarmissiri eins og gert er við fjárauka fyrir þetta ár.

Hv. þingmaður getur hér um skýringartexta, lögskýringartexta, var ekki rætt um þetta framlag til Háskólans á Akureyri í meiri hlutanum í fjárlaganefnd? Getur hv. þingmaður ekki komið og sagt okkur að þessar 30 (Forseti hringir.) milljónir til skólans séu óskilyrtar og það sé verkefni yfirstjórnar skólans að ráðstafa þeim peningum eins og hún vill?