144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki í starfi útvarpsstjóra né stjórnarmaður í RÚV þannig að ég tjái mig að sjálfsögðu ekkert um það hvernig ég sé fyrir mér rekstur Ríkisútvarpsins. En hitt get ég upplýst og fylgdi því eftir í grein í Morgunblaðinu í morgun, sem ég hef nú birt á vefsvæði mínu á netinu, að Ríkisútvarpið hefur aldrei fengið jafn háar greiðslur frá skattgreiðendum eins og fyrir árið 2015 og birtist hér í þessum fjárlögum. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að gefa mér kost á því einu sinni enn að leiðrétta þann misskilning og hálfsannleik sem gengur út um allt samfélagið.

Þessi ríkisstjórn skilar öllum nefskattinum til RÚV. Nefskatturinn er um 3.700 milljónir. Það er með öllu óskiljanlegt út af hverju RÚV getur ekki haldið sig innan rammans. Ég veit að félagið er skuldsett af lífeyrissjóðsskuldbindingum, (Forseti hringir.) en félagið á líka eignir sem geta hæglega gengið upp í þær. Þannig að félagið ætti raunverulega rekstrarlega séð að vera á núlli og geta rekið sig fyrir þetta fjármagn.