144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú var það svo að minni hlutinn bað um fund í fjárlaganefnd vegna málefna Bankasýslu ríkisins og þurfti að ganga svolítið eftir því og blanda þingflokksformönnum og forseta þingsins inn í það mál til að fá fund um málefni Bankasýslunnar, því svo virtist að það ætti að leggja hana af og flytja hlutverk hennar yfir í fjármála- og efnahagsráðuneytið án þess að til væri lagaumgjörð um hlutverkið og verkefnið allt saman sem gengur út á að fara með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Nú liggur fyrir breytingartillaga frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þar sem hún gerir ráð fyrir að Bankasýslan starfi að minnsta kosti í hálft ár. Það er gert ráð fyrir fjármunum í það verk.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað það var á fundi fjárlaganefndar síðdegis í gær sem varð til þess að þau sinnaskipti urðu og menn ákváðu að setja inn peninga og halda áfram með Bankasýsluna.