144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit nú ekki alveg hvar ég á að byrja. Við lögðum til tillögu sem fólst í því að hækka framlög til Háskólans á Akureyri sem meiri hlutinn felldi. Þannig að ég er að sjálfsögðu til í stórsókn fyrir allt háskólakerfi á Íslandi og ekki síst fyrir Háskólann á Akureyri. Þegar því er haldið fram að Háskólinn á Akureyri hafi fengið sanngjarna úthlutun úr 617 millj. kr. pottinum þá segi ég nei.

Ég hefði viljað sjá öðrum aðferðum beitt. Ég trúi því að að minnsta kosti einhverjir þingmenn innan meiri hlutans séu mér sammála og lít þar meðal annars til hæstv. forseta. Ég held að ef skipt hefði verið af einhverju viti úr þessum potti hefði þriðji stærsti háskólinn á Íslandi, Háskólinn á Akureyri, sem hefur staðið sig gríðarlega vel, eins og hér hefur margoft komið fram, í rekstri, sagt upp fólki, lagt niður brautir og annað því um líkt, hann hefði átt að fá meiri peninga úr þessum stóra potti.

Virðulegur forseti. Það að koma hér sem formaður fjárlaganefndar og biðja mig um að vera með sér í stórsókn fyrir Háskólann (Forseti hringir.) á Akureyri — mér þykir þingmanninn setja niður við að gera það, vegna þess að það er búið að fella (Forseti hringir.) tillögu minni hlutans þess efnis. (Gripið fram í: Móti stórsókn?)