144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er ágætt. Þess ber að geta að ég sem formaður fjárlaganefndar sendi þessa skiptingu milli háskólanna til menntamálaráðuneytisins aftur. Þegar skiptingin birtist meiri hluta fjárlaganefndar áttu einungis tveir háskólar að fá uppbætur á nemendur. Svo þegar þetta kemur til meiri hluta fjárlaganefndar aftur þá er þetta skiptingin. Ég hef margoft lýst því yfir að Háskólinn á Akureyri og háskólasamfélagið verður að athuga hvernig þessi skipting fór fram í ráðuneytinu. Jú, ráðuneytið hefur sett sína mælistiku á málið og útkoman varð sú að Háskólinn á Akureyri fékk 10 milljónir.

Ég get ekki svarað fyrir menntamálaráðuneytið hvernig þeir stjórna sínum pottum eða hvaða mælistikur þeir nota. Ég hef bara ekki forsendur til þess. Við erum búin að vera að leita eftir þessum skýringum í allt haust. En eitt er víst, og það er alveg ljóst eftir þessa fjárlagagerð fyrir árið 2015, að það þarf að eiga sér stað stórkostlegt samtal milli (Forseti hringir.) háskólasamfélagsins og embættismannanna, sem eru í menntamálaráðuneytinu til að leggja áherslurnar, um það hver hin pólitíska sýn ríkisstjórnarinnar er. (Forseti hringir.) Hún er að styðja og styrkja landsbyggðina, ekki einungis að byggja upp í 101. (Gripið fram í: Það sést.)(Gripið fram í: Heyr, heyr.)