144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hérna fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar og undir það nefndarálit skrifar sú sem hér stendur.

Fyrir 2. umr. lagði stjórnarandstaðan sameiginlega fram breytingartillögur til að sníða af helstu vankanta frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Skemmst er frá því að segja að ekki var tekið í útrétta sáttarhönd stjórnarandstöðunnar. Ef fallist hefði verið á tillögur stjórnarandstöðunnar hefði mátt koma í veg fyrir að sjúklingar greiði 1,9 milljarða kr. í gjöld árið 2015 fyrir heilbrigðisþjónustu og 25 ára og eldri hefði áfram verið tryggt aðgengi að bóknámi framhaldsskóla. Stjórnarmeirihlutinn heldur fast í fyrri áform og gerir þessar breytingar á grunnstoðum samfélagsins án þess að nein stefnumarkandi umræða hafi átt sér stað.

Algjört lágmark hefði verið að samþykkja tillögur stjórnarandstöðunnar um að veita fjármuni til viðhalds á Landspítalanum og standa vörð um réttindi launafólks. Landspítalinn lekur og liggur undir skemmdum vegna myglu og maura. Ríkisstjórnin ætlar einhliða að skerða bótatímabil sem atvinnulausir eiga rétt á úr þremur árum í tvö og hálft ár sem mun bitna á mörg hundruð atvinnuleitendum. Samkomulag um starfsendurhæfingu er rofið með því að skerða fjárframlög til VIRK og um jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða sem mun leiða til þess að lífeyrir skerðist hjá verkafólki og sjómönnum á næsta ári. Með þessum aðgerðum er þríhliða samkomulag ríkisstjórnar, verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, sem áður hefur alltaf verið hægt að treysta á í íslensku samfélagi, sett í uppnám og mun hafa áhrif á kjaraviðræður sem fram undan eru til hins verra.

Ríkisstjórnin nær ekki að skapa sátt, hvorki í stóru né smáu og elur á sundrungu. Hún gengur gegn skýrri ályktun stjórnar RÚV um að útvarpsgjald lækki ekki heldur verði áfram 19.400 kr. á árinu 2015. Athygli vekur að meiri hluti stjórnarinnar er skipaður af ríkisstjórnarflokkunum og stjórnin er sammála í ályktun sinni. Tillaga í takt við áherslur stjórnar RÚV var lögð fram af stjórnarandstöðunni við 2. umr. en stjórnarmeirihlutinn felldi hana.

Ríkisstjórninni var tíðrætt í allt haust um mótvægisaðgerðir vegna hækkunar matarskattsins sem hefur líka áhrif á menningartengda starfsemi, en hafnar tillögu stjórnarandstöðunnar um 50 millj. kr. viðbótarframlag til Bókasafnssjóðs höfunda, myndlistarsjóðs og tónlistarsjóðs. Standa á við áform um að skera niður framlag vegna þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis þrátt fyrir að ítrekað hafi komið fram að málafjöldi sé mikill og niðurskurðurinn muni hafa neikvæð áhrif. Staðið er við lækkun á framlögum til öryrkja og eldri borgara sem gerð var tillaga um á milli 1. og 2. umr. Samkvæmt breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar verður heildarjöfnuður á árinu 2015 aðeins 3,6 milljarðar kr. og það er ekki mikill afkomubati þegar við horfum fram á skuldastöðu ríkissjóðs. Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum er ekki gert ráð fyrir miklum afkomubata allt kjörtímabilið.

Minni hluti fjárlaganefndar gerir enn tilraun til að slípa af helstu galla fjárlagafrumvarpsins og leggur fram breytingartillögur um framlag til reksturs heilbrigðiskerfisins fyrir sykurgjald og að RÚV fái hálfs árs aðlögun að breyttu rekstrarumhverfi sem lækkun útvarpsgjalds kallar á. Einnig eru fluttar tillögur um framlag til að flýta málum þolenda kynferðisofbeldis, til framkvæmda við Helguvíkurhöfn í Reykjanesbæ og til að fylgja eftir þingsályktunum um stafræna íslensku og um upplýsinga- og tjáningarfrelsi.

Alvarleg staða er komin upp á vinnumarkaði ef tillaga ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga um að skerða réttindi langtímaatvinnulausra með styttri bótatíma ásamt því að skerða framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða og til VIRK.

Virðulegi forseti. Því miður voru þessi áform samþykkt fyrr í dag. Miðstjórn ASÍ hefur í yfirlýsingum sínum sagt að þessar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar verði til þess að félagsmenn þurfi að búa sig undir átök á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins hafa tekið undir með ASÍ og sagt að aldrei fyrr hafi stjórnvöld rofið einhliða samkomulag sem gert hefur verið við verkalýðsfélög og samtök atvinnurekenda. Tillaga minni hlutans um að staðið yrði við samkomulagið var felld af stjórnarmeirihlutanum við 2. umr. fjárlaga.

Skerðing bótatímans hefur áhrif á mörg hundruð einstaklinga strax um áramótin. Sumir missa bætur með öllu þar sem fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna miðast t.d. við að ef maki er með tekjur fær viðkomandi enga aðstoð. Aðrir fá aðstoð frá sveitarfélögunum en fjárhæðin er í öllum tilfellum lægri en atvinnuleysisbæturnar. Augljóst er að ákvörðunin mun auka líkur á fátækt hjá þessum hópi. Athygli er vakin á því að með þessari harkalegu aðgerð gagnvart langtímaatvinnulausum ætlar ríkisstjórnin að spara sér 1 milljarð kr. á sama tíma og hún leggur til afnám auðlegðarskatts upp á um 10 milljarða kr.

Virðulegi forseti. Minni hlutinn gerir aðra tilraun til að bæta stöðu heilbrigðismála með flutningi breytingartillagna við 3. umr. Lagt er til að sykurgjald skili 3 milljörðum kr. í tekjur og þeim verði varið til styrkingar á heilbrigðiskerfinu. Lagt er til að fallið verði frá því að S-merktu lyfin fari inn í greiðslukerfið með öðrum lyfjum með 145 millj. kr. kostnaði sem sjúklingar hefðu greitt og að átak verði gert í geðheilbrigðismálum. Spítölum, heilsugæslum og heilbrigðisstofnunum verði gert kleift að vinna úr þeim kostnaði og lengingu biðlista sem kjaradeilan við lækna mun valda. Einnig er lagt til að aukið fjármagn verði veitt í viðhald á Landspítalanum enda heldur húsnæðið ekki vatni og er sums staðar heilsuspillandi. 1. minni hluti hefur miklar áhyggjur af þeirri alvarlegu stöðu sem heilbrigðiskerfið er í og undrast ráðaleysi stjórnvalda hvað það varðar. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt til að sáttanefnd verði sett á laggirnar til að freista þess að leysa deiluna við lækna en á það hlustar hæstv. ríkisstjórn ekki. Vandinn vex á meðan ríkisstjórnin ræður ekki við lausn málsins.

Á fund fjárlaganefndar komu stjórnendur og stjórnarmenn RÚV og fóru yfir stöðu stofnunarinnar. Ríkisútvarpið hefur víðtæku hlutverki að gegna samkvæmt lögum; menningarhlutverki, lýðræðishlutverki, öryggishlutverki og því að halda úti fjölbreyttri dagskrá og dreifa henni örugglega til landsmanna. Á fundinum voru fulltrúar RÚV á einu máli um að áætlanir í fjárlagafrumvarpinu og fyrirhugaðar lækkanir á útvarpsgjaldi, á árinu 2015 í 17.800 kr. og í 16.800 kr. á árinu 2016, mundu hafa afgerandi áhrif á dagskrá og útsendingartíma og óvíst væri hvort stofnunin gæti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Því yrði að breyta þeim fyrirætlunum og halda útvarpsgjaldinu óbreyttu sem er nú 19.400 kr. Minni hlutinn lagði fram slíka tillögu við 2. umr. en stjórnarmeirihlutinn felldi hana. Því mun minni hlutinn gera aðra tilraun nú með tillögu um að útvarpsgjaldið verði 18.600 kr. á árinu 2015. Þannig væri komið til móts við óskir stjórnarmeirihlutans um lækkun gjaldsins og til móts við stjórn RÚV um að gjaldið lækkaði ekki niður í 17.800 kr. Ljóst er að ef ekkert verður að gert hefur stjórnarmeirihlutinn komið Ríkisútvarpinu á kaldan klaka.

Virðulegi forseti. Á fund fjárlaganefndar komu framkvæmdastjóri og formaður stjórnar Isavia ásamt fulltrúum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Tilefnið var tillaga meiri hluta fjárlaganefndar um að Isavia skilaði 700 millj. kr. arði í ríkissjóð á árinu 2015. Í máli stjórnenda Isavia kom skýrt fram að félagið sé ekki fært um að greiða arð í ríkissjóð enda standi fyrir dyrum fjárfestingar á Keflavíkurflugvelli fyrir um 40 milljarða kr. á næstu sjö til tíu árum. Hins vegar fögnuðu þeir þeirri ákvörðun meiri hluta fjárlaganefndar að leggja til 500 millj. kr. framlag til viðhalds á flugvöllum úti um landið. Áhersla var lögð á að halda þessum tveimur málum aðskildum og vegna ört vaxandi ferðamannastraums til landsins yrði að framkvæma og verja fjármagni bæði til viðhalds og uppbyggingar úti um land en einnig á Keflavíkurflugvelli. Ef félagið ætti að greiða arð þýddi það einfaldlega að lán yrði tekið fyrir framkvæmdum með tilheyrandi vaxtakostnaði. 1. minni hluti vill taka það fram að ekkert kostnaðarmat er til á frestun á viðhaldi flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli en fram hefur komið að þar eru dýrustu flugbrautir landsins og að þær liggi nánast undir skemmdum. Þegar herinn annaðist viðhald á brautunum var varið um 1 milljarði kr. til þess ár hvert. Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að 6. gr. heimild í fjárlagafrumvarpinu um eignfærslu á flugbrautum á Keflavíkurflugvelli verði skoðuð í því ljósi að bent var á af forsvarsmönnum Isavia að við það að færa flugbrautir á Keflavíkurflugvelli undir Isavia vex eigið fé fyrirtækisins um 7%, fyrirtækið fær hagstæðari lán og betra söluverð fengist fyrir félagið ef til sölu á því kæmi. Varað er við því að skref verði stigin sem leitt gætu til sölu Isavia og þar með sölu á flugbrautunum á Keflavíkurflugvelli, gangi eignfærslan eftir samkvæmt heimild í 6. gr. frumvarpsins.

Gagnrýnt er að áform meiri hlutans um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju lágu ekki fyrir fyrr en rétt áður en frumvarp til fjárlaga var afgreitt úr fjárlaganefnd til 3. umr. Óásættanlegt er að í fjárlagafrumvarpið og í breytingartillögur fjárlaganefndar vanti fjármagn til að smíða ferjuna. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar segir aðeins að vinna skuli að „fjármögnunarleiðum samhliða undirbúningi útboðs sem fyrirhugað er á fyrri hluta komandi árs.“ Meiri hlutinn hefur ekki enn tryggt fjármögnun þessa mikilvæga verkefnis en setur fram óljósan texta um málið í nefndarálit sitt. Skilningsleysi virðist ríkja hjá stjórnarmeirihlutanum um mikilvægi öruggra samgangna til Vestmannaeyja og að unnið verði hratt og ákveðið að því verki að smíða nýja ferju.

Forseti. Minni hlutinn leggur fram tillögu um fjárframlag til framkvæmda vegna viðlegukants við Helguvíkurhöfn. Mikilvægt er að jafnræði ríki á milli iðnaðarsvæða um fjárstuðning ríkisins á iðnaðarsvæðum úti um land. Nú hefur fyrirvörum verið létt vegna byggingar kísilvers á iðnaðarsvæðinu við Helguvík í Reykjanesbæ og framkvæmdir þar hafnar. Ríkisframlag vegna framkvæmda við Helguvíkurhöfn á árinu 2015 þarf að koma til vegna nauðsynlegra framkvæmda við höfnina fyrir starfsemi kísilversins. Engar tillögur eru þar um í frumvarpinu eða breytingartillögum meiri hlutans en minni hlutinn leggur til 180 millj. kr. framlag til verksins.

Bankasýslu ríkisins var komið á fót með lögum nr. 88/2009. Bankasýslan á að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings. Í starfsemi sinni er Bankasýslunni m.a. ætlað að gæta þess vandlega að kappkosta að efla og styrkja samkeppni á fjármálamarkaði. Lögin um Bankasýsluna byggjast á armslengdarsjónarmiðum. Í frumvarpi til þeirra laga er fjallað um að Bankasýslan verði rekin á faglegum forsendum með það að markmiði að byggja upp trúverðugt og traust fjármálakerfi til framtíðar og stuðla þannig að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði. Í lögunum kemur fram að Bankasýslan eigi að starfa í fimm ár en breyta þarf lögunum til að leggja hana niður, enda væri þá engin umgjörð til um þau mikilvægu verkefni sem Bankasýslan á að sinna. Ekkert fjármagn er ætlað í Bankasýsluna í fjárlagafrumvarpinu og þar stendur á bls. 417, með leyfi forseta:

„Framlög hækka um 47,2 millj. kr. vegna verkefna sem áður var sinnt af Bankasýslu ríkisins, en samkvæmt lögum nr. 88/2009 fór hún með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt sömu lögum skyldi hún lögð niður árið 2014. Í ljósi þess að ríkissjóður fer áfram með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum er fyrirhugað að verkefnin verði færð til aðalskrifstofu ráðuneytisins, en jafnframt er gert ráð fyrir að eignarhlutum í öðrum fyrirtækjum í ríkiseigu verði sinnt með sambærilegum hætti.“

Ætlunin er að fella verkefni Bankasýslunnar undir fjármála- og efnahagsráðuneytið án laga þar um. Það er ekki ásættanlegt þegar til stendur að selja eignarhluti ríkisins á árinu 2015 eins og fram kemur m.a. í yfirliti yfir sjóðstreymi ríkissjóðs á bls. 4 í fjárlagafrumvarpinu. Slík ráðstöfun er auk þess ekki til þess fallin að auka traust og trúverðugleika hvað varðar meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum með neinum hætti. Auk þess hefur engum starfsmanni Bankasýslunnar verið sagt upp og því óvíst hvaðan eigi að greiða laun starfsmannanna á árinu 2015. Þessi lausatök um meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum eru harðlega gagnrýnd af 1. minni hluta og óskiljanlegt er að stjórnarmeirihlutinn hafi ætlað sér að færa umsýsluna með sölu þeirra í hendurnar á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra án lagaumgjörðar. Spyrja má um armslengdarsjónarmiðin og gegnsæi þegar svo er komið.

Virðulegi forseti. Þegar sú sem hér stendur skrifaði þetta nefndarálit leit málið þannig út að hlutverk Bankasýslunnar færi undir fjármála- og efnahagsráðuneytið án lagaumgjörðar, en starfsmenn Bankasýslunnar hefðu þá ekkert að gera. Það var ekki búið að segja þeim upp en enginn vissi hvaðan ætti að borga þeim launin þannig að staðan var í algjöru uppnámi. En eftir að minni hluti fjárlaganefndar hafði þrábeðið um fund í fjárlaganefnd til þess að fara yfir þessi mál, það gekk meira að segja svo langt að leita þurfti til hæstv. forseta Alþingis til þess að koma á slíkum fundi, kom í ljós á þeim fundi að ekki var við stöðuna unað eins og meiri hluti fjárlaganefndar og hæstv. ríkisstjórn ætlaði að skilja við málið. Nú er því búið að leggja til rúmar 33 millj. kr. þannig að Bankasýslan geti starfað inn á árið 2015 og við hv. þingmenn tekið þá afstöðu til frumvarps um lagaumgjörð og hvað það er sem tekur við þegar Bankasýslan hefur verið lögð niður.

Virðulegi forseti. Meiri hluti fjárlaganefndar setur fram í nefndaráliti sínu athugasemdir varðandi Íbúðalánasjóð sem ég skil þannig að meiri hlutinn gagnrýni stjórnvöld fyrir að standa sig ekki sem skyldi. Þetta stendur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Framlög til sjóðsins hafa numið 53,5 milljörðum kr. frá árinu 2009 og allt of lengi hefur dregist að stjórnvöld uppfylli þá skyldu sína að grípa til aðgerða sem hafa það að markmiði að draga úr hallarekstri sjóðsins og áhættu í rekstri hans. Meiri hlutinn hyggst fylgja því eftir strax í byrjun næsta árs að knýja á um að gripið verði þegar í stað til aðgerða til að stöðva áframhaldandi taprekstur Íbúðalánasjóðs.“

Vissulega kemur þessi málsgrein í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar svolítið spánskt fyrir sjónir því að Íbúðalánasjóður býr náttúrlega við mikinn uppgreiðsluvanda og einnig vanda vegna vaxtamunar og skuldaniðurgreiðsla stjórnvalda hefur stórkostleg áhrif á sjóðinn, enda hefur stjórn Íbúðalánasjóðs sent frá sér yfirlýsingu og samþykkt sem hljómar svo, með leyfi forseta:

„Stjórn Íbúðalánasjóðs gerir athugasemdir við það að verið sé að skilyrða bætur vegna höfuðstólslækkunar enda um að ræða lögbundnar skyldur ríkissjóðs, samanber lög nr. 35/2014, til þess að bæta tjón en ekki samningsatriði sem hægt er að skilyrða. Stjórn kallar eftir heildarumgjörð um bætur fyrir það tjón sem hlýst af leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Kallað er eftir formlegum samningi með nákvæmum forsendum sem lagðar verða til grundvallar við mat á tjóni sjóðsins vegna úrræða stjórnvalda.“

Virðulegur forseti. Ég held að stjórnvöld þurfi að útskýra aðeins betur hver er staðan vegna þess að bæði í fjáraukalagafrumvarpinu fyrir árið 2014 og í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 er talað um framlag til sjóðsins en það er skilyrt. En sjóðurinn á við þennan gífurlega vanda að stríða og stjórnin, sem er nú að meiri hluta skipuð af fulltrúum hæstv. ríkisstjórnar, er samhent í því að segja: Þið eruð að gera alls konar hluti sem hafa áhrif á stöðu sjóðsins og það eruð þið sem eigið að setja fram áætlanir um þessi mál.

Virðulegi forseti. Þessi hæstv. ríkisstjórn sem nú hefur starfað í 18 mánuði hefur (Gripið fram í: Náð góðum árangri. ) alla vega náð góðum árangri (Gripið fram í.) í því að sameina andstæðinga. Hún hefur sameinað minni hlutann í þinginu, við stöndum saman í því að reyna að slípa helstu vankanta af fjárlagafrumvarpinu. Hún hefur sameinað fulltrúa ASÍ og Samtök atvinnulífsins, en þessi stóru samtök standa sameinuð í mótmælum gegn því að ríkisstjórnin skuli fara inn í samkomulag, þríhliða samkomulag, og rjúfa það. Bæði Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands segja: Það er verið að ráðast á réttindi langtímaatvinnulausra með harkalegum hætti og skerða örorkubyrði lífeyrissjóða þannig að skerða þarf lífeyrisréttindi verkafólks og sjómanna. Þau mótmæla einnig ráðstöfunum vegna VIRK. Samtök atvinnulífsins og ASÍ eru sammála um að þetta séu atriði sem muni leiða til erfiðra deilna, erfiðari en ella. Þessu hefur hæstv. ríkisstjórn áorkað. Hún hefur líka náð því að sameina stjórn RÚV sem er skipuð fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkum og þar eru í meiri hluta framsóknarmenn og sjálfstæðismenn. Stjórn RÚV er einhuga í mótmælum sínum gegn aðför, það er ekki hægt að kalla það annað en aðför ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi gegn Ríkisútvarpinu. Og nú síðast í dag náði hún að sameina stjórn Íbúðalánasjóðs þar sem meiri hluti er líka framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, og þar er mótmælt stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum sjóðsins og kallað er eftir skýrri stefnu.

Virðulegur forseti. Fleiri og fleiri eru að taka höndum saman til þess að mótmæla aðgerðum hægri stjórnarinnar sem hér hefur ráðið ríkjum í 18 mánuði. Ég spái því, svo að ég gerist nú völva í sölum Alþingis, að á árinu 2015 muni enn fleiri hópar sameinast gegn ríkisstjórninni og það verði annaðhvort til þess að hún taki sig saman og bæti sig eða hún verði að fara frá.