144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir ræðu hennar. Ég tek undir með henni þegar hún fjallar um mikilvægi þess að þau málefni sem heyra undir Bankasýsluna fái hér góða þinglega meðferð og þar séu tryggð þessi armslengdarsjónarmið. Meiri hluti fjárlaganefndar og ríkisstjórnin koma algjörlega þar inn með fjárveitingu og breytingartillögu sem ég fagna.

Í öðru lagi langar mig að koma aðeins inn á Isavia og þá tillögu fjárlaganefndar að veita aukið fjármagn til að byggja upp innanlandsflugvelli. Í máli hv. þingmanns kom fram að þetta yrði til þess að draga úr eða flytja opinber störf. Það hefur komið fram m.a. hjá formanni Samfylkingarinnar að flytja ætti störf frá Keflavík í hinar dreifðu byggðir. Það sem Isavia sagði á þeim fundi var — staðreyndin er náttúrlega sú að flugvallarframkvæmdir í Keflavík eru fjármagnaðar annaðhvort með arði frá Isavia eða lántöku. Það hefur aldrei neitt komið fram um það að til standi að draga úr starfsemi í Keflavík.

Það sem hins vegar kom fram sem hv. þingmaður gleymdi að minnast á (Forseti hringir.) er að gríðarlegur niðurskurður var hjá innanlandsflugvöllum úti á landi af fyrri ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Það hefði verið gott ef það hefði komið (Forseti hringir.) fram.