144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom ekkert fram í vinnu nefndarinnar um það að til stæði að draga úr þeim framkvæmdum sem stæðu yfir í Keflavík, alls ekki. Það sem kom fram, og ég segi það hér aftur, að Isavia hefur tvær leiðir til að fjármagna framkvæmdir sínar, annars vegar með lántöku og hins vegar með uppsöfnuðum hagnaði. Það kom ekkert fram um það. En það sem hryggir mig er að Samfylkingin skuli ekki koma af krafti inn í það þegar verið er að leggja til auknar fjárveitingar til innanlandsflugvalla í stað þess að gagnrýna það, eins og hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar gerði og talaði um að verið væri að flytja störf frá Reykjanesi út á land.

Hitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um snýr að Landspítalanum og heilbrigðiskerfinu — ég tek undir það að mikilvægt er að veita aukið fjármagn til heilbrigðiskerfisins — ég spyr hv. þingmann hvort það sé ekki rétt að meiri fjárveitingar séu núna til Landspítalans en voru í tíð síðustu ríkisstjórnar (Forseti hringir.) og hvort ekki sé nein von til þess að hv. þingmaður geti viðurkennt það að núverandi ríkisstjórn er að bæta í (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfið, jafnvel þó að það þurfi að gera meira og hraðar, þar tek ég undir með hv. þingmanni.