144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar kannski fyrst og fremst að beina sjónum að tvennu. Annars vegar því sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og varðaði aldurstakmörk inn í framhaldsskólann þar sem kemur fram að gert er ráð fyrir því að loka bóknámi fyrir fólki 25 ára og eldra. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um umfjöllun og umræður í hv. fjárlaganefnd að því er varðar lögmæti þessarar ákvörðunar. Þá vísa ég einfaldlega til jafnræðissjónarmiða stjórnarskrárinnar og annarra greina í stjórnarskránni þar sem er kveðið á um það að hinu opinbera beri skylda til þess að sjá þegnum samfélagsins fyrir menntun. Ég vil spyrja hvort þessi umræða hafi yfir höfuð átt sér stað.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann varðandi verklag við gerð fjárlaga og lagaheimild sem skilyrðing (Forseti hringir.) 181 milljónar viðbótar til Ríkisútvarpsins hvílir á. Ég sé þess hvergi stað að það sé rökstutt með fullnægjandi (Forseti hringir.) hætti að fjárlaganefnd hafi heimild til þess að skilyrða fjárframlagið eins og gert er.