144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:47]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé einboðið þegar um er að ræða svo skýran texta eins og kemur fram í stjórnarskrá Íslands þar sem segir í 65. gr. að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis o.s.frv. og stöðu að öðru leyti, að það hljóti að eiga við aldur.

Í 76. gr. segir, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.“

Það hlýtur að minnsta kosti að teljast alveg ljóst að það beri að undirbyggja takmarkanir að þessu leyti með skýrri tilvísun í viðkomandi löggjöf. Mér vitanlega er ekkert í framhaldsskólalögunum sem segir til um að þetta sé heimilt. Slík umræða hefur ekki farið fram hér í þingsölum og að mínu viti er ekki um nein málefnaleg sjónarmið að ræða sem liggja til grundvallar þeirri ákvörðun nákvæmlega að nema staðar við 25 ár frekar en t.d. 42 eða 36 eða eitthvað allt annað. Ég tel að ef svo heldur fram sem horfir, ef haldið verður áfram með þetta hljóti einhverjir að leita réttar síns fyrir dómstólum (Forseti hringir.) vegna þess hversu óvíst þetta er gagnvart grunnlöggjöf samfélagsins.