144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er hressandi í upphafi dags meðan veðrið geysar úti. (Gripið fram í.) Við erum rétt að byrja, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson. (Gripið fram í: … þetta er byrjunin.) Það hefur margt komið fram nú þegar og ágætt að fylgjast með orðaskiptum hv. þingmanna og því hvernig litið er á hin ýmsu mál.

Það kemur fram í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar við 2. umr. um frumvarpið sem er til umfjöllunar margháttuð gagnrýni, þrátt fyrir að við getum glaðst yfir því að bæði stjórnarandstaðan og almenningur í landinu höfðu þannig áhrif að tekist hefur að sníða nokkra vankanta af þessu frumvarpi á milli umræðna. En töluvert af þeirri gagnrýni sem ég setti fram í fyrra nefndaráliti mínu, m.a. um stefnumörkunina, á enn við.

Mér finnst fjárlagafrumvarpið enn þá bera allt of mikinn keim af eindreginni hægri stefnu sem og umræðurnar af hálfu stjórnarliða og höfnun þeirra á breytingum minni hlutans, sem vel að merkja miðuðu að því að styrkja og efla almannaþjónustu og velferð almennings. Þær eru af sama toga og einnig samstaðan um að vernda hagsmuni þeirra efnuðu sem lýsir sér í undanhaldi á skattheimtu af þeim sem hafa það betra í samfélaginu.

Frumvarpið ber skýrt með sér hvernig stjórnvöld fara með þau völd sem þeim var trúað fyrir af kjósendum. Ég tel fulla ástæðu til að vara við þessari stefnu. Ég lýsi líka andstöðu við hana og minni á að stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, bera einir ábyrgð á þessu frumvarpi, veikleikum þess og afleiðingum.

Ég ætla að fjalla nánar um einstaka liði og þætti frumvarpsins og fara yfir það sem mér finnst helst vera að. Það sem ég tek fyrir er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi.

Mikil umræða hefur farið fram um þá fyrirætlan stjórnvalda að draga verulega úr tekjum Ríkisútvarpsins. Stjórn RÚV kom á fund fjárlaganefndar og gerði henni ljóst, eins og hér hefur verið rakið, að sá niðurskurður sem áformaður er þýðir gagngerar breytingar á starfsemi þessa eina ljósvakamiðils í landinu sem almenningur á og starfar fyrir hönd almennings, hann þýðir verulegan samdrátt á öllum verkefnasviðum. Við vitum öll að niðurskurðurinn mun verða til þess að veikja starfsemi RÚV þannig að verulega verður vegið að lögbundnu verkefni Ríkisútvarpsins. Ég hef ekki viljað togast mikið á um tölur, ég held að menn séu komnir í ógöngur þar en það er samt hægt að ræða að auglýsingatekjur RÚV, sem eru auðvitað töluvert mikilvægur tekjustofn, hafa lækkað um 7% á síðasta rekstrarári, eða um 140 milljónir, fyrst og fremst vegna breytinga sem lagasetningin hafði í för með sér, þannig að talað er um að áhrifin geti jafngilt um 200 millj. kr. lækkun á ársgrundvelli.

Ég hef rætt það áður að dreifikerfið þarfnast viðhalds og endurnýjunar. Það eru í kringum 140 milljónir. Svo er samningur um stafræna dreifingu til Vodafone til 15 ára.

Í nýju lögunum er gert ráð fyrir kaupum á dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum. Það er líka gert ráð fyrir því að það fari úr 4,5% í 10% af heildarþjónustutekjum sem RÚV fær frá stjórnvöldum.

Það er líka vert að minnast þess að samningurinn sem ráðherra hefur gert við Ríkisútvarpið samkvæmt 4. mgr. 2. gr. útvarpslaga þarf að tryggja aðgengi og þjónustu við fatlað fólk sem af einhverjum ástæðum getur ekki nýtt sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu. Að sjálfsögðu kostar það fjármuni. Þetta er fátt eitt af því sem kemur með lögunum, er íþyngjandi fyrir rekstur Ríkisútvarpsins og ég held að hafi ekki verið gætt nógu vel að.

Það hefur mikið verið rætt um að þetta sé skattur á alla. Við skulum minnast þess að þetta er vissulega skattur á þá sem eru 16–70 ára en viðkomandi verður að hafa yfir 1.559 þúsund í laun á ári og svo eru auðvitað líka lögaðilarnir sem borga gjöld.

Ég tel að með skrefinu sem hér er verið að taka sé um leið tekið óheillaskref fyrir miðlun og sköpun menningar í landinu, vandaðan og óháðan fréttaflutning og gagnrýna umræðu um stjórnmál og almenn þjóðfélagsmál.

Annað sem mig langar að koma inn á, og við höfum verið að reyna að tala fyrir, er þingsályktunartillaga sem samþykkt var af þeim þingmönnum sem þá sátu í sal og hefur fengið nafnið Stafræn íslenska.

Þann 12. maí 2014, á 143. löggjafarþingi, var samþykkt þingsályktun um aðgerðaáætlun um notkun stafrænnar íslensku í stafrænni upplýsingatækni. Ég er ekki viss um að allir viti nákvæmlega um hvað málið snýst. Mér hefur að minnsta kosti fundist það í þeim samræðum sem ég hef átt um þetta mál. En samkvæmt þessari samþykkt var skipuð nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni til að gera áætlun um aðgerðir til þess að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Skipun nefndarinnar dróst alllengi, en í byrjun september var henni þó komið á laggirnar og hefur hún nýlegar skilað menntamálaráðherra skýrslu og áætlun um aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í á næstu árum til að gera íslensku nothæfa og gjaldgenga í stafrænu umhverfi. Ráðherra hefur ekki enn þá gert efni umræddrar skýrslu uppskátt, en fram hefur komið að fyrstu skref í aðgerðum vegna stafrænnar íslensku snúist um íslenska talgreiningu og er talið að það verkefni kosti í kringum 90 millj. kr. Við lögðum til að 20 milljónum yrði varið í þessu skyni, þ.e. fyrir árið 2015, því að það fé dygði til þess að koma verkefninu á góðan rekspöl.

Það hefur margoft verið vakin athygli á því að um þessar mundir eykst stafræn notkun tungumála hratt og næsta víst að þau tungumál sem ekki halda í við þá þróun muni eiga erfitt uppdráttar. Mikið starf hefur því verið unnið víða um heim við að finna og þróa aðferðir til að nota tungumál í stafrænu umhverfi. Slík tækni er komin af tilraunastigi og er mjög víða notuð. Sökum þess að hvert og eitt tungumál er gætt sérstökum eiginleikum þarf að laga grunntæknina að sérkennum hvers þeirra. Ætli Íslendingar að nota þjóðtungu sína á þessu sviði í framtíðinni en ekki eitthvert erlent tungumál er ekki seinna vænna að leggja grunninn að því.

Stjórnvöld hafa hafnað því að leggja fram fé í þetta verk, eins og gerðist við 2. umr. fjárlaga, og ætla með því að heykjast á því að tryggja komandi kynslóðum tækifæri til að nota íslensku í stafrænu umhverfi. Með því tel ég að verið sé að grafa undan tilverugrundvelli tungumálsins og um leið er verið að kasta á glæ tækifærum til hagkvæmni og sparnaðar sem felast í stafrænni beitingu tungumála. Til að upplýsa fólk aðeins um hvað þetta snýst þá væri það þannig að ræða þeirrar sem stendur hér akkúrat núna væri tekin upp og færð á stafrænt form og þyrfti ekki að lesa hana yfir og endurrita af hálfu ritara. Þetta er því mikill tímasparnaður. Það yrði að sjálfsögðu einhver sem rétt renndi yfir textann, en hann væri kominn á stafrænt form. Læknar gætu talað við mynd sem þeir væru að taka af sjúklingi, í staðinn fyrir að nota digtafón og þurfa svo að skrifa það upp á samtalið sér stað beint. Þetta er gríðarlegur sparnaður og getur verið mikið öryggistæki víða.

Ég held því að þetta sé afskaplega gott mál og ber þá von í brjósti að við náum að koma þessu verkefni af stað. Ég held að þegar á reyni vilji allir stuðla að því að við getum nýtt okkur íslenskuna á sem flestum stöðum og létt okkur vinnuna.

Virðulegi forseti. Við í minni hluta fjárlaganefndar höfum lagt fram nokkrar breytingartillögur. Eitt af því sem við lögðum fram fyrir 2. umr. og var fellt, eða öllu heldur kallað til baka, var úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis og bar það árangur þótt því miður væru ekki lagðar nema 20 milljónir í úrræðið. Ég tel að það sé vanmat á umfangi og mikilvægi þessa málaflokks. Þolendur kynferðisofbeldis verðskulda engan veginn svona sinnuleysi. Það vekur hjá manni furðu að það fé sem er veitt rennur aðeins til tveggja lögregluembætta landsins, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Maður hugsar um það hvers þolendur kynferðisofbeldis í öðrum landshlutum eigi að gjalda. Þarf að sækja alla þjónustu og gera alla hluti erfiðari með því að hafa þetta eingöngu á höfuðborgarsvæðinu? Það er góðra gjalda vert og ég er glöð yfir því að þessa 20 milljónir voru settar í málaflokkinn, en ég tel að það hefði þurft að gera betur.

Þá vek ég athygli þingheims á því að það vekur undrun, mína að minnsta kosti, að rúmlega tvöföld sú upphæð sem veitt er til úrræða fyrir þolendur kynferðisofbeldis rennur til öryggisgæslu við aðsetur forseta Íslands á Bessastöðum. Því spyr ég: Hvað hefur orðið til þess að veikja öryggi forseta Íslands svo mikið að nauðsynlegt sé að verja fremur fé til gæslu hans en til þolenda kynferðisofbeldis? Á sama tíma stærir forsetinn sig af því að hér sé allt svo öruggt og hér þurfi ekki að vera gæsla o.s.frv. Það er ekki góður forgangur að skipa málum á þennan hátt.

Heilbrigðismálin hafa verið mikið til umfjöllunar og ekki að ósekju. Það sem hér hefur gerst á undanförnum mánuðum hefur orðið til að beina athygli okkar hvað eftir annað að þeim mikla vanda sem við er að fást í heilbrigðiskerfi landsmanna, þ.e. Landspítalinn, háskólasjúkrahúsið okkar sem er auðvitað þjóðarsjúkrahús allra landsmanna og mikilvæg rannsókna- og kennslustofnun. Það hefur svolítið gleymst líka í því samtali sem við höfum reynt að eiga við meiri hluta þingsins. Þessi stofnun býr við, eins reyndar margar aðrar, viðvarandi rekstrarvanda og hvert ár sem líður án þess að brugðist sé við hnignandi hag þessarar mikilvægu starfsemi veikir starfsþrek og dug stofnunarinnar og stjórnvöld hafa ekki gripið til trúverðugra ráðstafana til að marka Landspítalanum braut til framtíðar sem öflug heilbrigðisstofnun í almannaþágu.

Lausatök stjórnvalda á heilbrigðismálum eru mikil og hafa þau komið skýrt fram í starfi fjárlaganefndar og eru gagnrýniverð þar sem annars staðar. Sleifarlagið er allt of oft einkennandi fyrir störf nefndarinnar og kom það meðal annars í ljós þegar unnið var að lokafrágangi frumvarpsins núna fyrir 3. umr. en þá bárust meiri hluta nefndarinnar fyrirmæli um að leggja til viðauka við nefndarálitið sem greiða átti atkvæði um og var það gert. Þarna voru lagðar til og gerðar breytingar sem voru aldrei kynntar í nefndinni né komu þær til umræðu þar. Það var svo sem búið að boða þá umræðu í janúar en þetta er svolítið sérkennilegt og lýsir kannski mörgu sem við höfum drepið á í umræðunni um það hvernig ríkisstjórnin hegðar sér, hún framkvæmir fyrst og hugsar svo í of mörgum tilfellum. Þær breytingar sem þarna voru lagðar fram geta haft umtalsverð áhrif á rekstur Landspítalans og því ber okkur að leggja áherslu á að áhrifin verði könnuð verulega áður en lengra er haldið.

Það er hægt að hafa langt mál um ástand heilbrigðiskerfisins og dugleysi stjórnvalda á þeim vettvangi en mig langar helst að vekja athygli á málefnum barna- og unglingageðdeildarinnar, BUGL, sem er hluti Landspítalans og sætir þar með niðurskurði eins og önnur starfsemi hans, og hefur gert, þrátt fyrir að hér sé talað um mikla innspýtingu. Það er í sjálfu sér gott og blessað að þessir fjármunir skuli settir í starfsemina en það er löngu ljóst að þeir duga ekki til.

Það er vert að vekja athygli á því að í fyrra voru rúmlega sjö þúsund komur skráðar á göngudeild BUGL og það segir töluvert um þörfina fyrir þjónustuna sem þar er veitt. Ég held að það sanni svo ekki verður um villst að ekki er nein ástæða til niðurskurðar þar, frekar þörf á hinu gagnstæða. Þá vil ég vekja athygli á því að þingheimur, meiri hluti, greiddi atkvæði gegn viðbótarfjárveitingu frá minni hlutanum sem var til atkvæðagreiðslu við 2. umr. upp á 250 milljónir, þar af voru 50 milljónir ætlaðar og eyrnamerktar BUGL.

Það er líka þannig að ástæða er til að hafa áhyggjur af þjónustu Barnaverndarstofu úti á landsbyggðinni. Það hefur komið fram þau hafi komið á fund fjárlaganefndar og ástandið er ekki gott, hvorki í höfuðborg Norðurlands né víða annars staðar um landið. Þessi mál hafa ekki fengið nægilegan stuðning af hálfu stjórnvalda og er gjarnan vísað til þess að sveitarfélögin eigi að sjá um ákveðna hluti, en barna- og unglingageðþjónusta á Akureyri hefur þjónustað miklu meira en Norðausturkjördæmi, hún hefur þjónustað norður í Skagafjörð og víða. Þetta er bágborin staða og enginn starfandi barna- og unglingageðlæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Því miður ákvað ríkisstjórnin að styðja ekki við þetta úrræði þrátt fyrir að flestir, held ég, séu meðvitaðir um að það er ekki gott ástand í þessum málum á landinu.

Annað sem hefur verið rætt töluvert mikið og stjórnvöld hafa gripið til er að auka greiðsluþátttöku sjúklinga vegna svonefndra S-merktra lyfja. Þau lyf eru ætluð langveiku fólki með þungbæra sjúkdóma sem ýmist þarf að fá lyfjagjöfina á heilbrigðisstofnun eða fær aðstoð við hana í heimahúsi. Það er svo merkilegt að síðarnefndi hópurinn verður látinn greiða hærra gjald, þ.e. þeir sem fá lyfin heima. Umrædd lyf eru að jafnaði sérhæfð og dýr í samræmi við það. Það er auðvitað lágkúrulegt að heimta hærra lyfjagjald af fólki sem flest hvert er haldið sjúkdómi sem hamlar því og getur jafnvel ekki aflað sér tekna þar sem það er of veikburða eða eitthvað slíkt til þess, margt hvert, að sjálfsögðu ekki allt. Því get ég ekki annað en mótmælt því misrétti sem þessi hópur er beittur og felst misréttið í því að þeir sem taka inn lyfin heima greiða fyrir þau að hluta en ekki þeir sem liggja á sjúkrastofnun. Samt er dýrara að liggja á sjúkrastofnun og ætti að vera ódýrara að veita þessa þjónustu utan hennar.

Síðan vil ég vekja athygli á því að það vantar í kringum 50 milljónir til þess að hægt sé að reka Sjúkrahúsið á Akureyri hallalaust á næsta fjárlagaári. Í stað þess að skapa grundvöll fyrir hallalausan rekstur þessarar mikilvægu stofnunar, þetta er næststærsta sjúkrahús landsins og öryggissjúkrahús líka á stóru svæði, eru frekar settir fjármunir í flytja Fiskistofu til Akureyrar. Það kostar 70 milljónir bara af byggðaáætlunarlið, fyrir utan að það kostar 205 milljónir, en þau 20 störf sem sögð eru skapast við það finnst ríkisstjórninni mikilvægari en að leggja 50 milljónir til Sjúkrahússins á Akureyri þannig að það geti starfað innan áætlunar. Fiskistofumálin eru áform sem eru lítið rædd og ekki undirbúin af þinginu og hafa ekki fengið neina sérstaka umræðu eða meðferð og manni finnst að tilgangurinn sé látinn helga meðalið því að eins og við höfum öll orðið vör við er viðbúið að starfsemi stofnunarinnar bíði einhverja hnekki af, vegna þess frumhlaups sem átti sér stað. Það hefur ekkert að gera með það hvort mér finnst að Fiskistofa eigi betur heima á Akureyri eða í Hafnarfirði eða annars staðar. Við höfum lýst því yfir hvað okkur finnst um það hvernig framkvæmdin var. Þetta snýst fyrst og fremst um það.

Í þessu samhengi er ég að tala um forganginn. Við erum með stofnanir sem eru sveltar og þær biðja um fjármuni, vissulega allar sem ein en Sjúkrahúsið á Akureyri bað um 50 milljónir en fékk ekki, það bað um 100 og fékk 50 og vantar því 50, en þetta þykir sjálfsagt og það er meira að segja tekið úr einhverjum byggðapotti að hluta.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að halda því til haga sem við ræddum aðeins áðan með háskólana, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð ásamt stjórnarandstöðuflokkunum lagði til fjárveitingu til Listaháskólans, að hún yrði aukin til að bregðast við húsnæðisvanda skólans. Svo fórum við vel yfir Háskólinn á Akureyri, að hann fengi réttmætan skerf af því sem úthlutað var vegna umframnemenda, því að ekki er hægt að líta öðruvísi á það og birst hefur viðtal þess efnis við rektor í blöðum þar sem honum finnst hann standa frammi fyrir því að ráðdeildarsemi í rekstri sé eitthvað sem borgar sig ekki því að þá er manni refsað en ef maður fer fram úr fær maður það bætt. Það geta ekki verið góð skilaboð til forstöðumanna stofnana og ber ekki vott um aga í ríkisfjármálum, ekki frekar en margt annað í þessu fjárlagafrumvarpi eða breytingarnar sem þar hafa verið gerðar.

Svo er það þessi fordæmalausa skilyrðing á úthlutuninni. Hún vegur að akademísku frelsi háskólans. Hv. formaður fjárlaganefndar var búinn að segja að hún ætlaði sér að lagfæra þessa lögskýringu með því að ræða það í framsöguræðu sinni. Það gerði hún ekki. Af því tilefni er væntanleg tillaga frá minni hluta fjárlaganefndar þess efnis að hér standi fólk við orð sín og merki þetta með sambærilegum hætti og gert var í fjáraukalögum, því að um það snerist málið.

Síðan eru það framhaldsskólarnir. Það eru auðvitað aðallega skólar úti á landsbyggðinni og sú róttæka og óheillavænlega breyting sem gerð var á starfsemi framhaldsskólanna, möguleikar þeirra á að taka við nemendum eldri en 25 ára voru þrengdir afar mikið. Það er mjög óheppilegt vegna þess að tækifæri til náms hefur oft reynst, eins og við þekkjum vel, gott úrræði fyrir fólk sem þarf að styrkja stöðu sína á atvinnumarkaði. Þessar ráðstafanir koma sérstaklega illa niður á landsbyggðinni. Mig langar að taka framhaldsskólann á Vestfjörðum fyrir. Menntaskólinn á Ísafirði hlýtur ekki viðbótarfjárveitingu og fjárvöntun veldur því að staða framhaldsdeildarinnar á Patreksfirði, sem er hluti af Fjölbrautaskóla Snæfellinga, er í uppnámi.

Eins og mörgum er kunnugt hefur verið uppgangur í atvinnulífinu á syðri hluta Vestfjarða og hefur þessi ánægjulega þróun meðal annars leitt til nemendafjölgunar í framhaldsdeildinni á Patreksfirði. Það er ekki brugðist við því með fjárveitingum til Fjölbrautaskóla Snæfellinga og þannig er staðið í vegi fyrir þeirri jákvæðu byggðaþróun sem á sér stað á syðri hluta Vestfjarða um þessar mundir. Starfsemi svonefndra dreifnámsskóla, sem þessar litlu einingar kallast, á undir högg að sækja eins og sjá má af því sem ég var að segja áðan um Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Fjármögnunin er mjög ólík. Í sumum tilfellum hefur verið nýtt fé úr sóknaráætlun landshluta, allt að 30%, fjórir skólar eru fjármagnaðir þannig, og minnkandi fjármagn í sóknaráætlanirnar hefur auðvitað sitt að segja varðandi önnur verkefni sem þetta frábæra verkefni, sóknaráætlun landshlutanna, hefur annars alið af sér.

Þar er frekar stuðlað að vanda í rekstri dreifnámsskólanna með fjárlagafrumvarpinu heldur en að miða að því að koma þeim á traustan grunn og því miður er ástæða til að óttast um framtíð þeirra. Það eru allt of margir dreifnámsbúar í fjárlaganefnd Alþingis til þess að ég trúi því að þeir beiti sér ekki fyrir því að þetta verði sett á einhvern hátt, að allir sitji við sama borð hvað varðar fjárveitingar til þessara dreifnámsskóla, að það sé ekki mismunandi. Auðvitað á að tryggja þeim sérstakt fé en ekki þannig að móðurskólarnir sem þurfa á einhverjum tímapunkti að skera niður velji það að skera þetta frá sér. Það hefur orðið gríðarleg aukning á Patreksfirði, úr líklega rétt rúmum tug nemenda í tæplega 40. Það á ekkert að bæta við. Það er náttúrlega óeðlilegt.

Varðandi sóknaráætlanirnar hefur, eins og við þekkjum, verið ráðist að skipulagi þeirra og menningarsamningum og vaxtarsamningum og öllu á að steypa saman. Það felst auðvitað sú hætta í þessu að aðgerðir til að efla byggðir, hvort sem það er í heild sinni eða sérstakri starfsemi innan þeirra, verði ómarkvissar og leiði ekki til hagsbóta fyrir almenning eins og þeim var ætlað að gera. Þetta eru ekkert annað en slæleg vinnubrögð og niðurskurður á fjárveitingum og því miður er ekki góðs að vænta þegar það fer saman. Það er sorglegt vegna þess að þetta verkefni hefur verið afar vel útfært og mikil samstaða um það og allar sveitarstjórnir og öll landshlutasamtök sem hafa komið á fund fjárlaganefndar lýsa yfir miklum vonbrigðum með að verkefnið skuli ekki fá meira brautargengi. Ríkisstjórnin kom í tvö ár í röð með 15 milljónir inn í þetta verkefni. Hvaða vilja lýsir það þegar það þarf með látum og djöfulgangi í ræðustól Alþingis og úti í samfélaginu að sjá til þess að það verði sett eitthvað til viðbótar í verkefnið? Það var bætt við 85 milljónum tvisvar sinnum í röð. Þetta segir okkur hug ríkisstjórnarinnar. Hún vill ekki þetta verkefni. Það er heila málið.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að koma inn á það sem við ræddum í gær og varðar breytingu á virðisaukaskattinum og áhrif hennar meðal annars á fjárhag sveitarfélaga. Stjórnvöld hafa komið með breytingar á álagningu virðisaukaskatts þar sem efra þrepið lækkar úr 25,5% í 24% og neðra úr 7% í 11%, sem bækurnar, tónlistin og matvörurnar eru í. Eins og lýðnum er kunnugt hefur stjórnarandstaðan andmælt þessum ráðstöfunum mjög og á þeim forsendum að þær feli helst í sér aukna skattheimtu á tekjulágt fólk og þrengi verulega að þeirri menningarstarfsemi sem hækkunin snertir. Það er vert að halda þessu til haga hér þótt þau sjónarmið hafi komið fram undanfarið því að þetta er grafalvarlegt mál.

Ég vil líka ræða þetta í samhengi við áhrif þessara breytinga á fjárhag sveitarfélaga og breytingar á fyrirkomulaginu á skattendurgreiðslunni, á verkefninu Allir vinna, hvað þetta hefur í för með sér. Það er ekkert samstarf haft við fulltrúa sveitarfélaganna um þessar ráðstafanir. Það er ekki annað hægt en að gagnrýna það. Þetta eru ámælisverð vinnubrögð. Margítrekað er gengið á samkomulag og lög gagnvart sveitarfélögunum og samkomulag við vinnumarkaðinn, það er ekkert samráð. Hér er ríkisstjórn sem segir: Ég má og ég vil og ég skal og ég get. Því miður, virðulegi forseti, er það svo.

Fleiri ráðstafanir fjárlagafrumvarpsins hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaganna, t.d. styttingin á bótatímabili atvinnuleysisbóta en fjöldi manns á ekki að öðru að hverfa en framfærslu á vegum sveitarfélaganna sem er lægri en atvinnuleysisbætur. Því miður mun þetta verða til þess að staða hinna atvinnulausu verður erfiðari, þetta verður til þess að auka fátækt og veikja rekstur sveitarfélaganna.

Því miður bar allt of oft á flausturslegri vinnu við þessi fjárlög, við alla gerð frumvarpsins, hún setti mark sitt á öll þessi störf. Innanríkisráðherra vék úr embætti og var að þeim atburði langur aðdragandi. Nokkur tími leið uns við fengum að sjá annan einstakling sem var valinn á þennan vettvang. Það hefði mátt ætla að nægur tími hefði verið til að ganga rétt frá öllu hvað þetta varðaði en það er öðru nær. Sú sem hlaut innanríkisráðherraembættið situr ekki á Alþingi en þingið ber ábyrgð á launagreiðslum til hennar vegna ráðherrastarfa. Skrifstofustjóri sóttist eftir fjárveitingu vegna þingfararkaups utanþingsráðherra en meiri hluti fjárlaganefndar lét hins vegar hjá líða að leggja fram tillögu um það og fellur því kostnaður vegna launa ráðherrans óbættur á þingið.

Annað dæmi um slíka sérstaka starfshætti var að selja úr eigu ríkisins fasteignir, flugvelli, jarðeignir og landspildur sem komst á kreik undir lok nefndastarfa í fjárlaganefnd og birtist öllum að óvörum og umræðulaust. Sem betur fer var þessi lítt siglda tilraun til að skjótast umræðulaust inn í fjárlagafrumvarpið stöðvuð en því miður standa samt eftir slæm og fyrirhyggjulaus vinnubrögð og áhyggjur af því að þessu verði fylgt eftir á einn eða annan hátt.

Svo er það hringlandahátturinn með embætti lögreglustjórans á Austurlandi og Suðurlandi. Það eru enn ein vinnubrögðin sem eru bæði undarleg og illa ígrunduð. Þar var sveitarfélagið Hornafjörður fært undir umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi en meðferð fjárins sem var samþykkt í þinginu fylgdi hins vegar Suðurlandi, þannig að hér fóru stjórnarliðar gegn yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra. 51 milljón fer því á lögregluna á Austurlandi, þeir eru með Hornfirðingana sér við hlið, en þeir fá ekkert borgað fyrir það. Ég trúi nú ekki öðru en að hæstv. forsætisráðherra þurfi að svara fyrir þetta.

Virðulegi forseti. Ég hef komið inn á ýmsa af göllum og vanköntum fjárlagafrumvarps ársins 2015 en þeirra ekki allra getið, enda er frumvarpið því miður ekki til þess fallið að efla og styrkja innviði samfélagsins eins og vert væri. Þar skortir töluvert á.

Um leið og ég vil árétta að engir samningar áttu sér stað um þetta frumvarp sem gera aðra en stjórnarliða ábyrga fyrir efni þess skal þess getið að þótt tillögur stjórnarandstæðinga mættu oftast ekki öðru en óbilgirni og höfnun voru þó stöku dæmi um annað. Heimild til samninga um flutning á efni úr Vaðlaheiðargöngum á flughlaðssvæði á Akureyri er eitt dæmi um það en þar tók meiri hlutinn skynsamlega ákvörðun á grundvelli tillagna frá bæði minni hluta og meiri hluta. Svo er líka jákvætt að fjárveitingar í fjarskiptasjóð (Forseti hringir.) til lítilla innanlandsflugvalla voru auknar, en þær hafa mikla þýðingu fyrir þau byggðarlög sem þeirra njóta. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég læt staðar numið að sinni. Ég hélt ég hefði meiri tíma hér í upphafi en kannski set ég mig í aðra ræðu.