144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:31]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir ræðuyfirferð sína. Hún sinnir greinilega starfi sínu í fjárlaganefnd af kostgæfni, fylgist hér vel með öllu og hefur farið yfir ýmsa vankanta sem hægt er að finna í fjárlögum fyrir árið 2015. Af þeim þáttum er mér efst í huga þessi 25 ára regla í inngöngu í framhaldsskóla landsins. Þó að ég standi hérna sem þingmaður Suðvesturkjördæmis er ég núna búsett á Höfn í Hornafirði og starfa þar í mjög litlum framhaldsskóla sem gegnir gríðarlega miklu samfélagslegu hlutverki. Ég velti fyrir mér hvort umræða hafi átt sér stað um hvernig eigi að framkvæma þessa 25 ára reglu með tilliti til landsbyggðarinnar. Á að mynda einhvers konar fjarnám í háskólabrúm, á að skikka alla til að flytja til Keflavíkur og fara í Keili eða hvernig á að framkvæma þennan þátt? Ég hef af þessu áhyggjur af því að þessir skólar sinna nemendum á öllum aldri.

Í nýlegum rannsóknum hefur verið talað um að það sé mjög ljóst að menntunarstig úti á landi sé lægra en gengur og gerist á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er náttúrlega verkefni sem á að taka. Til dæmis í Suðurkjördæmi er menntunarstig kvenna með því lægsta á landinu. Síðan er verið að skerða aðgang þeirra að framhaldsmenntun í sínum heimabæ. Er verið að skoða einhverjar leiðir um hvernig á að framkvæma til þess að viðhalda menntunarstigi?