144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Nei, það er eitt af því sem við í stjórnarandstöðunni höfum gagnrýnt mjög, hér er gefin út hvítbók en svo er bara ekkert farið eftir henni. Svo virðist sem stefnumótun á framhaldsskólastiginu og skólastiginu yfirleitt fari fram í gegnum fjárlög. Hún fer ekki fram með almennri umræðu eða í nánu samráði við þá sem um ræðir. Í rauninni veit enginn hvað tekur við. Hæstv. ráðherra hefur sagt að fólk geti bara sótt sér nám í símenntunarmiðstöðvar eða eitthvað og það vitum við að er ekki alls staðar tæk leið. Fólk þarf jafnvel að ferðast lengra og svo bætist við kostnaðaraukinn.

Fjarnámið er eitt af því sem lýtur í gras fyrir hæstv. ráðherra því að hann hefur sagt að það sé eitthvað sem honum finnist ekki ástæða til að efla frekar en þá sem eru orðnir 25 ára þannig að við vitum ekki hvernig hann ætlar að framkvæma þetta. Ég tek undir með þingmanninum, ég hef séð það líka á mínu heimasvæði þar sem reis menntaskóli hversu gríðarlega mikil samfélagsleg áhrif hann hefur haft og hvað það er gaman að vera í skóla þar sem er blandaður hópur fólks á öllum aldri. Það skiptir líka miklu máli fyrir innra starf skólans.

Því miður er skerðing á þessum hópi eiginlega óþolandi, þ.e. að þetta skuli gert. Þar fyrir utan veikir þetta svo rekstrargrunn minni skólanna að þeir geta ekki haldið úti tilteknum áföngum af því að þeir hafa ekki nægilega marga nemendur. Þetta er eitt af því sem hjálpaði meðal annars til við það að hægt var að bjóða upp á fjölbreytt nám. Það gagnaðist yngra fólkinu líka. En nú verður námið fábreyttara og auðvitað hefur maður áhyggjur af því að þeir verði sveltir og settir undir stærri skóla.