144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:35]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir þessi svör. Eins og gefur að skilja verður fátt um svör. Litlir framhaldsskólar — maður kallar þá litla en þeir eru náttúrlega risastórir í sínum heimabæjum en í samanburði við framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu eru þeir litlir. Það að úthýsa menntun á framhaldsskólastigi fyrir 25 ára og eldri til símenntunarmiðstöðvanna skýtur svolítið skökku við af því að þá er í rauninni verið að yfirfæra verkefnið á símenntunarmiðstöðvarnar. Hverja ráða símenntunarmiðstöðvarnar til þess að kenna í þessum háskólabrúm sem eiga síðan að vera staðsettar? Jú, þær ráða framhaldsskólakennarana sem eru starfandi í framhaldsskólunum á svæðunum á uppsprengdu verði. Ég sé ekkert annað en gríðarlegan kostnaðarauka við verkefnið. Það sem ég er síðan búin að læra á síðustu mánuðum er að í litlum byggðakjörnum á landsbyggðinni eru engar brýr í samfélagi kynslóðanna sem gerir samfélagið oft mjög skemmtilegt og sjarmerandi. Ég held að ungmennin í þessum skóla séu bara svo vön samskiptum, samræðum og samveru, hvort sem er inni í skólastofu eða annars staðar í samfélaginu, með sér eldra fólki. Það er ekki hægt að leggja að jöfnu samfélagið úti á landi og það sem gengur og gerist á höfuðborgarsvæðinu. Það er bara ekki hægt að setja sömu reglur og viðmið og klína þessu yfir á allt landið.