144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að það sé alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hvaða áhrif þessi niðurskurður mun hafa. Og mun þá kannski heyrast harmakvein því að það hefur hingað til varla mátt breyta einhverjum liðum, til dæmis síðasta lagi fyrir fréttir eða hvað það heitir, öðruvísi en að fólk geri athugasemdir. Við erum ótrúlega háð Ríkisútvarpinu á marga vegu þó að við gerum okkur kannski ekki alltaf grein fyrir því svona dags daglega.

Ég trúi stjórninni. Ég hef enga ástæðu til annars en að treysta því að stjórnin viti um hvað hún er að tala. Hún er að láta gera fjárhagslega úttekt á Ríkisútvarpinu þannig að þetta snýst ekki um að spara í ræstingum eða eitthvað því um líkt. Það þarf bara að fara í niðurskurð og í rauninni skera niður dagskrárliði, þáttagerð, fréttaskýringaþætti eða hvað það er.

Ég kallaði eftir því hvar mennta- og menningarmálaráðherra hefði verið í umræðunni um háskólana. Ég verð líka að segja, mér finnst hann hafa verið fjarverandi í þessari umræðu. Hann er ráðherra málaflokksins. Hann er menningarmálaráðherra. Þetta er menningarstofnun. Mér finnst hann ekki standa vörð um hana. Mér finnst það mjög skrýtið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Mér finnst hann hafa sloppið vel undan þessari umræðu. Ég held reyndar að það sé bara kannski lognið á undan storminum því að þetta verður ekki sársaukalaust.

Ég tek líka undir það sem hv. þingmaður segir varðandi landsbyggðina, þar er alveg ótrúlega lítil þjónusta. Einhvern tímann taldi ég hlutfall starfsmanna á landsbyggðinni miðað við þá á höfuðborgarsvæðinu, það var um 5%, ef það náði því. Ég veit að útvarpsstjóri skilur mikilvægi þess að vera með öfluga þjónustu úti um allt land og var spennt fyrir þeim áformum en ég get ekki séð að af þeim verði miðað við þetta. En það verður bara að koma í ljós.