144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég tek undir það með hv. þingmanni að mikilvægt er að úrræði sé til staðar.

Sú umræða að bönkunum verði falið þetta eða þeir skyldaðir til að sinna þessu — treystir hv. þingmaður því að hægt verði að fela þessum stóru fjármálastofnunum það hlutverk, það félagslega hlutverk, það byggðalega hlutverk? Treystir þingmaðurinn því af því að um það snýst þetta stóra mál? Það er ekkert mál að loka Íbúðalánasjóði, en það verður að liggja alveg ljóst fyrir hvað tekur við í framhaldinu.

Er Björt framtíð tilbúin til að strika yfir þetta vegna þess að tap ríkissjóðs sé svo mikið hvað þetta snertir?

Mig langar síðan að spyrja hv. þingmann aðeins út í fjármagn sem meiri hluti fjárlaganefndar setur í fjarskiptamál og hver skoðun Bjartrar framtíðar sé á því fyrirhugaða verkefni ríkisstjórnarinnar sem hefur verið til umræðu að ljósleiðaravæða landið. Er Björt framtíð fylgjandi því verkefni ríkisstjórnarinnar? Styður flokkurinn það framtak ef farið verður í það á næstu árum?