144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af læknaverkfalli og því ástandi sem er á vinnumarkaðnum. Það hefur komið fram í viðtölum við hæstv. heilbrigðisráðherra að full ástæða er til þess að hafa áhyggjur af málum þar enda held ég að menn séu að funda reglulega um það hvernig hægt er að leysa þau mál.

Varðandi Ríkisútvarpið þá var ég bara að vitna til umræðna á nefndarfundi í fjárlaganefnd. Ég ítreka að sá sem hér stendur hefur ávallt stutt Ríkisútvarpið og hefur sagt það, og að Ríkisútvarpið sé rekið af hálfu hins opinbera. Það er mikilvægt í menningarlegu tilliti, það er mikilvægt í öryggislegu tilliti, en það verði að taka ákveðnum breytingum, m.a. út frá auglýsingamálum. Á fjárlaganefndarfundi var meðal annars rætt um dreifikerfi Ríkisútvarpsins og breytingar í þeim efnum þannig að sá sem hér stendur er bara að segja það og hvatti stjórn reyndar til þess, ekki vegna þess að það eigi að vera einhver átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu, (Forseti hringir.) að skoða hvaða breytingar þurfa að gerast á RÚV og (Forseti hringir.) hugsanlega að skoða samhliða því hvað er að gerast í öðrum löndum, í Skandinavíu og annars staðar varðandi ríkisfjölmiðla.