144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til þess að stjórn Ríkisútvarpsins sé alltaf að skoða nýjar leiðir í rekstrinum og hvernig megi ná fram hagræðingu í rekstri. Höfuðáherslan á auðvitað að vera á að framleiða innlent efni, rétt eins og stjórn Ríkisútvarpsins sjálf hefur boðað. En það kom líka fram á fundinum að auglýsingaflóran er enn að breytast, enn dregur úr auglýsingum og menn spá því að það muni dragi enn þá meira úr auglýsingum í miðlum sem þessum. Tæknin er að breytast, notkun á vefmiðlum er orðin miklu meiri, menn horfa á fréttir og annað í gegnum vefmiðla. Þetta kom allt fram á fundi fjárlaganefndar.

Ég vil segja það aftur sem kom fram í fyrri andsvörum mínum að sá sem hér stendur er stuðningsmaður Ríkisútvarpsins en það er ávallt mikilvægt fyrir Ríkisútvarpið að vera tilbúið til þess að ráðast í nauðsynlegar breytingar og mér fannst vera fullkominn skilningur á því (Forseti hringir.) hjá stjórn Ríkisútvarpsins og ekkert nema jákvæðni og þetta var mjög góður fundur, (Forseti hringir.) ég tek undir með hv. þingmanni að þetta var góður tveggja tíma fundur.