144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt um háskólana. Það fjármagn sem kom inn í lok síðasta árs hefur væntanlega ekki verið varanlegt vegna þess að þá hefði það farið inn í fjárlagafrumvarpið. En ég vil segja varðandi þá umræðu sem hefur verið hér í dag að sá sem hér stendur hefur hlýtt á þá umræðu og meðtekið mörg þessara skilaboða, en engu að síður liggja fyrir breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið og sá sem hér stendur styður þær.

Varðandi heildarniðurstöðu fjárlaganna þá er það vissulega rétt hjá hv. þingmanni að það er gott að hafa eins mikinn afgang af fjárlögum og mögulegt er hverju sinni, ég kom inn á það í ræðu minni, þannig að við getum farið að minnka vaxtagjöld og greitt niður skuldir. En eins og hv. þingmaður hlýddi líka á í minni ræðu leggur ríkisstjórnin ríka áherslu á að geta aukið jafnt og þétt við fjármagn í heilbrigðiskerfið, í menntakerfið og aðra mikilvæga þætti. Það er þess vegna sem við sjáum það í fjárlagafrumvarpinu að áfram er veitt meira fé til heilbrigðismála og ríkisstjórnin mun halda áfram á þeirri braut (Forseti hringir.) en leggur áherslu á að það sé fullur jöfnuður í ríkisfjármálunum.