144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna mörgum afar jákvæðum tillögum meiri hluta fjárlaganefndar, mörg jákvæð spor sem koma til með að skila sér út í samfélagið. Sem betur er það einfaldlega þannig að við erum á réttri leið, þetta þokast upp á við hjá okkur, hagtölur sýna það. Verðbólgan er í lágmarki, kaupmáttur launa er að aukast. Og þó að hagvaxtartölur hafi kannski ekki verið alveg jafn góðar og menn bjuggust við þá vonumst við til að hrinda í framkvæmd mikilvægum verkefnum sem munu auka hagvöxtinn í landinu. Það sem mér finnst jákvæðast er að um leið og við erum að ná þessum árangri erum við líka að stuðla að jöfnuði í ríkisfjármálum og ríkisstjórnin sýnir ábyrgð. Ég nefndi það í ræðu minni við 2. umr. að ég fagna sérstaklega boðuðu frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra um ný lög um opinber fjármál. Ég held að ef við náum að koma því í gegn munum við fá miklu ábyrgari fjárlög, umræðan verður málefnalegri og við munum ná að byggja upp Ísland til framtíðar.

Það er eitt mál sérstaklega sem snýr að mér sem formanni samgöngunefndar og það er uppbygging flugvalla víðs vegar um landið og þá áherslu sem ferðaþjónustan og umhverfisverndarsamtök hafa lagt á að opna fleiri gáttir inn í landið. Við þekkjum umræðuna um átroðning á vissum ferðamannastöðum, þekkjum umræðuna um að við séum í rauninni að taka ferðamenn inn í gegnum eina gátt, og ferðamálaráð, ferðaþjónustan og umhverfisverndarsamtök hafa talað mjög sterkt fyrir því fyrir umhverfis- og samgöngunefnd að stjórnvöld hugi að því að opna fleiri gáttir inn í landið. Þetta er liður í því að við náum að tryggja ferðaþjónustuna, tryggja henni stöðugan grunn til framtíðar, en huga um leið að okkar dýrmætustu ferðamannaperlum.

Það hefur engu að síður verið töluverður mótþrói við það að setja fjármagn í þetta og sá mótþrói hefur komið því miður frá Isavia, sem hefur haldið uppi þeim málflutningi að ekki megi nota hinn gríðarlega hagnað sem kemur af millilandafluginu í innanlandsflugið, og skýlir sér á bak við reglur. Ég hef margítrekað lýst því yfir að ég tel að þær röksemdir eigi ekki við og að við eigum að fara sömu leið og Norðmenn og Finnar og nýta þennan arð í að byggja upp flugvelli hringinn í kringum landið. Ég held að það sé skynsamlegt út frá öllum hagsmunum þjóðarinnar til langframa, það er mín skoðun.

Þegar við ákváðum á síðasta kjörtímabili að ráðast í hið mikilvæga verkefni, byggingu Vaðlaheiðarganga, var mikil samstaða um það að við mundum nýta efnið sem kæmi úr göngunum í eitthvert gott samfélagslegt verkefni. Það myndaðist mjög fljótt sameiginlegur skilningur á að flughlað, uppbygging nýs flughlaðs eða stækkun þess væri best til þess fallið að nota þetta efni í. Einhvern veginn hafðist það í gegn á síðasta kjörtímabili að taka 30 milljónir úr sameiginlegum ráðherrapotti til atvinnumála og setja í þetta verkefni. Af einhverjum völdum var það ekki greitt út, en baráttan hér á síðasta ári var einmitt að ná þeim fjármunum út úr ráðuneytinu til þess að hægt væri að undirbúa svæðið, flugvöllinn á Akureyri, til þess að taka á móti þeim 200 þús. rúmmetrum af efni sem voru hugsaðir í flughlaðið. Isavia fór í verkefnið þegar fjármunirnir fengust afgreiddir og reisti girðingu og drenaði svæðið þannig að frá því í vor hefur svæðið verið reiðubúið til þess að taka á móti þessu mikla efni, góða efni. Nú er það þannig að efnisskortur hefur verið í Eyjafirði. Efni er rándýrt, það þarf að sprengja það, flutningurinn er sömuleiðis rándýr, þannig að ríki, sveitarfélög og aðrir sem vilja byggja upp aðra gátt inn í landið hafa talið að það væri til mikilla hagsbóta fyrir ríkissjóð að fá efnið gefins en greiða fyrir flutninginn, það væri mjög skynsamlegt, mundi spara ríkissjóði tugi ef ekki hundruð milljóna króna. Það var mikil samstaða um þetta.

Síðan gerist það að heitt vatn fer að leka úr berginu í Vaðlaheiðargöngum Eyjafjarðarmegin eða þeim megin sem menn voru hvað mest að vinna, þannig að það var ákveðið að fara að vinna Fnjóskadalsmegin. Á meðan væri hægt að stöðva lekann sem var í göngunum. Það dróst því í rauninni og kannski létti aðeins á þrýstingnum að við mundum setja fjármuni í að keyra efnið.

Nú liggur fyrir, og ég fagna því sérstaklega, að 50 millj. kr. af þeim 500 sem meiri hluti fjárlaganefndar ákvað að taka af hagnaði Isavia á að nota í þessa uppbyggingu, þannig að núna er hægt að fara að flytja efnið á svæðið sem bæði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir hafa lagt áherslu á. Þetta er gríðarlega mikilvægur og góður áfangi í að gera Akureyrarflugvöll reiðubúinn að taka við auknu millilandaflugi, gríðarlega góður áfangi í því mikilvæga verkefni sem Eyþing, samband sveitarfélaga á Norðausturlandi, er sammála um, sveitarfélögin öll, Akureyrarbær og velunnarar þessa svæðis. Og ég ætla líka að fagna því að gert hafi verið ráð fyrir 6. gr. heimild fyrir innanríkis- eða fjármálaráðherra að ganga til samninga þannig að efnið komist allt til skila.

Ég vildi taka þetta sérstaklega fram vegna þess að ég held að þetta sé fyrsti liðurinn í því að nýtt flughlað verði að veruleika. Flugvöllurinn hefur verið á undanþágu vegna þess að flughlaðið er því miður aðeins of nálægt flugbrautinni, sem þó hefur ekki komið í veg fyrir að flugvöllurinn hefur nýst gríðarlega vel eins og við eldgosið í Eyjafjallajökli þar sem flugvélar lentu þar hver á eftir annarri, voru í rauninni að millilenda á leið sinni til Bandaríkjanna. En ef þetta verður að veruleika mun þessi undanþága væntanlega detta út enda verður hennar ekki þörf. Þetta er gríðarlega mikill og stór áfangi sem ég vonast til að við getum fagnað.

Mér fannst reyndar skrýtið áðan að heyra talsmann Samfylkingarinnar tala gegn því að hagnaðurinn, hinn gríðarlegi hagnaður yrði notaður í uppbyggingu á millilandaflugi. Það stendur ekki til á nokkurn hátt að rýra eða gera lítið úr þeim framkvæmdum og þeirri uppbyggingu sem á sér stað á Keflavíkurflugvelli, alls ekki. En við þurfum að sjálfsögðu að huga að landinu öllu og opna fleiri gáttir. Það held ég að sé kannski brýnasta málið, ekki bara hvað snertir ferðamálin heldur líka náttúruvernd á Íslandi. Ef okkur tekst að opna fleiri gáttir inn í landið og fá betri dreifingu ferðamanna væri það til mikilla hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Annað sem ég vildi fagna sérstaklega er áhersla meiri hluta fjárlaganefndar á málefni norðurslóða. Ríkisstjórnin hefur sett þau málefni sérstaklega á oddinn, talað fyrir því að hún vilji reyna með einum eða öðrum hætti að efla Ísland í þessu stóra verkefni en augu alheimsins beinast núna að norðurslóðum. Og bara til þess að sýna hversu mikilvægt og stórt verkefni þetta er að þá hafa Singapúr og Ítalía og fleiri lönd hinum megin á hnettinum óskað eftir áheyrnaraðild að norðurheimskautsráðinu. Af hverju? Jú, vegna þess að hagsmunirnir eru gríðarlegir.

Ég sem forseti Norðurlandaráðs á næsta ári hef talað fyrir því að þetta verði eitt af þeim meginverkefnum sem ég vil leggja áherslu á. Og það er mikill meiri hluti fyrir því eða það var sameiginlegur skilningur Íslandsdeildar Norðurlandaráðs að svo sé, að við Íslendingar leggjum áherslu á norðurheimskautssvæðið, á Vestur-Norðurlönd, á hafið, stóra, mikilvæga hafið í kringum Ísland, og róum að því öllum árum að tryggja stöðu Íslendinga. Ég hef talað fyrir því að við munum vera fremst í flokki þegar kemur að siglingum í gegnum norðurheimskautið. Það geta verið gríðarlega miklir hagsmunir fyrir Íslendinga þegar það verður að veruleika.

Þess vegna fagna ég því að verið sé að leggja fjármuni í heimskautaréttinn við Háskólann á Akureyri. Heimskautarétturinn hefur gert það að verkum að háskólinn hefur fengið alþjóðaathygli og viðurkenningar. Sérstaða hans hefur verið talin þó nokkuð mikil og þar á meðal út af því að þetta hefur verið kennt þar og sérstaða er háskóla eins og Háskólanum á Akureyri mjög mikilvæg. Ég hef heyrt að margir hér hafa fundið þessu allt til foráttu, en ég vil benda á það að við sem sitjum á hinu háa Alþingi eigum að hafa skoðun. Við eigum að hafa skoðun á menntakerfinu, við eigum að hafa skoðun á heilbrigðiskerfinu og það hefur nú komið fyrir hér í þingsölum að menn hafa eyrnamerkt fjármagn sérstaklega, eins og til Sjúkrahússins á Akureyri á síðasta kjörtímabili þegar menn vildu setja 20 milljónir til þess að bæta aðstöðu barna- og unglingageðdeildarinnar þar. Það er ekki endilega víst að forráðamenn sjúkrahússins á þeim tíma hafi verið neitt sérstaklega ánægðir, en ég studdi það vegna þess að ég sá fram á mikilvægi þess að gert yrði vel í þessum mikilvæga málaflokki. Ég samþykkti það og fylgdi því eftir þó að ég væri í stjórnarandstöðu að menn mundu setja sérstaka fjármuni út fyrir sviga til þess að styðja við geðheilbrigði barna og unglinga á Akureyri og Norðurlandi öllu.

Að öðru leyti vil ég segja að það er margt jákvætt að gerast. Við erum að bæta í í heilbrigðismálum, við erum að gera vel í menntamálum. Við þurfum svo á næstunni að sjálfsögðu, eins og gengur, að taka ýmsa málaflokka til skoðunar eins og vegamál og samgöngumál, og ég hef ítrekað nefnt og fagnað því að mér virðist vera skilningur á Alþingi fyrir því að bæta í þá málaflokka. En ég verð að taka það enn einu sinni fram að það var virkilega vel gert að bæta í flugvellina þannig að við getum haldið uppi þeirri mikilvægu samgöngubót sem flugið er. Landið okkar er stórt, það hefur enginn talað fyrir því að við förum að setja upp lestarkerfi og við eigum að halda flugkerfinu gangandi. Það er þjóðhagslega hagkvæmt, eins og ný skýrsla innanríkisráðuneytisins bendir sérstaklega á. Konur nota flug í mun meira mæli en karlar, ekki að það skipti máli en sýnir kannski hvað við eigum að leggja mikla áherslu á það og hversu félagslega sterkt er að við höldum fluginu uppi hringinn í kringum landið.

Að lokum vil ég þakka hv. fjárlaganefnd. Mér heyrist á einhverjum að þar hafi verið ágætissamstaða þó að við höfum kannski heyrt annað úr ræðustól frá stjórnarandstöðunni, en ég vona að fjárlaganefnd taki vel í frumvarp um opinber fjármál og að samstaðan verði góð og við getum áfram unnið að góðum verkefnum.