144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn svaraði samt sem áður ekki spurningunni sem ég bar fram varðandi háskólann þó að hann hafi ekki lesið póstinn — ég hvet hann til þess, hann getur gert það í símanum sínum eins og ég — þar sem þetta kemur fram með háskólann og þar er sagt, með leyfi forseta:

„Rektor átti von á því að formaður fjárlaganefndar kæmi með ítarlegri lögskýringu á því á Alþingi í umræðu í dag að fjármunum sé að sjálfsögðu ráðstafað af yfirstjórn skólans innan lagaramma um opinbera háskóla og reglur Háskólans á Akureyri á hverjum tíma, þar með talið það námsframboð sem í boði er samkvæmt reglum um lágmarksþátttöku o.s.frv.“

Ég spyr því hv. þingmann aftur. Varðandi arðinn af Isavia hef ég sagt það eins og með annað, við erum með stjórnir — eins og hefur komið fram hjá forstjóra Isavia getur fjárlaganefnd vissulega lýst vilja sínum, en hún á ekkert með að ákveða hvernig hún ætlar að ráðstafa því. Ef arðgreiðslur verða minni eða meiri eða hvernig það nú er, er þetta ákveðið inngrip í það. Það hefur ekkert með það að gera að ég vilji ekki uppbyggingu flugvalla, það veit hv. þingmaður alveg (Forseti hringir.) og það hefur komið hér vel fram. En ég vek bara athygli á því að við erum með stjórn í RÚV (Forseti hringir.) og við erum með stjórn í Isavia o.s.frv. Við felum þeim stjórnum — (Forseti hringir.) þær eru meira að segja pólitískt kjörnar flestar — ákveðið vægi. (Forseti hringir.) Til hvers erum við að gera það ef við ráðum þessu öllu?