144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur kannski eitthvað misskilist í máli mínu hér áðan. Það sem landshlutasamtökin bæði á Austurlandi og Norðurlandi hafa lagt áherslu á er að jafnræðis gæti í uppbyggingu á þessum flugvöllum. Við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að flugfélögin ákveða sjálf hvar þau vilja lenda og ferðamennirnir taka að sjálfsögðu líka ákvörðun um það hvert þeir vilja fara. En á meðan þeim er beint inn um eina gátt og ekki sett neitt fjármagn í uppbyggingu á öðrum flugvöllum þá munum við ekki ná jafnri dreifingu, og jöfn dreifing ferðamanna hlýtur að vera það sem er best fyrir land og þjóð.

Flughlaðið gerir að verkum að aðbúnaður á Akureyrarflugvelli mun stórbatna. Ef við náum svo líka að bæta í flughlaðið á Egilsstöðum þá mun flugið þangað líka verða betra. Ég er sannfærður um, í ljósi þeirra dýrmætu og glæsilegu (Forseti hringir.) ferðamannastaða sem við eigum á Norðurlandi og Austurlandi, að þegar aðstaðan verður í lagi (Forseti hringir.) muni ferðamannastraumur aukast að miklum mun inn á þessi svæði.