144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar aðeins til að tala um þessi fjárframlög til Háskólans á Akureyri. Við verðum að hafa í huga að þær 30 milljónir komu inn í fjárlagafrumvarpið 2013 með ákveðinni skýringu, einhverra hluta vegna sem tímabundið framlag en átti ekki að vera það, komu svo aftur inn á fjáraukanum 2014 og eru nú komnar í þriðja skipti á fjárlögum 2015. Þetta eru alltaf sömu 30 milljónirnar sem um ræðir sem snúa að rannsóknarmissirum og stoðþjónustu. Við vitum alveg og ég þarf ekkert að fara yfir það hvers vegna það er. Háskólinn er búinn að greiða niður sinn skuldahala, búinn að standa sig gríðarlega vel í rekstri, en menn þar hafa varla peninga til að ferðast til Reykjavíkur, hvað þá annað. Kennarar hafa tekið á sig launalækkanir og þar fram eftir götunum, þannig að þessar 30 milljónir þurfa að vera inni.

Við eru öll sammála líka um það að norðurslóðaverkefnið sem hefur verið í gangi í Háskólanum á Akureyri er mjög þarft, en það eru hundrað aðrar leiðir til að styrkja það. Ég skil því ekki af hverju meiri hlutinn lét ekki þessar 30 milljónir vera eins og til var ætlast og koma svo með annað framlag þá, nýtt fé í (Forseti hringir.) norðurslóðaverkefnið. Hvers vegna var það ekki gert?