144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé í annað skiptið sem hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson heldur því fram að einhver karlmaður tali í gegnum mig þegar ég hef staðið hér í hliðarsal, og ég kann ekki við það. Ég var að spyrja hv. þingmann hvers son þú værir af því að ég hafði gleymt því eitt augnablik.

Það eru til margar leiðir til að styðja við norðurslóðastarfið. Eitt af því hefði verið til dæmis að útdeila meiri peningum úr þessum 617 millj. kr. sjóði til Háskólans á Akureyri. Ég upplifi það þannig að meiri hlutinn treysti ekki Háskólanum á Akureyri til að standa vörð um þetta norðurslóðanám. Er það þannig? Treystið þið ekki háskólanum til að standa vörð um heimskautaréttinn nema þið hreinlega eyrnamerkið ákveðna upphæð í það nám? Er það rétt skilið hjá mér?