144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þegar hann fagnar því að við höfum náð fjármunum í flughlaðið. Það er vissulega rétt að á síðasta kjörtímabili voru rétt fyrir kosningar settar 30 milljónir inn í ráðuneyti hv. þingmanns, 30 milljónir til að gera flughlaðið reiðubúið til að taka á móti þessi efni.

Svo fórum við í það á síðasta ári að ná þessu út úr ráðuneytinu vegna þess að auðvitað átti það að fara á fjárlagalið á sínum tíma, ekki í einhvern ráðherrapott hjá þingmanninum sem aldrei var greitt út til Isavia og Isavia vildi ekki einu sinni taka á móti. En það hafðist og það tókst og því ber að fagna og ég fagna því að þingmaðurinn hafi þó stigið þau skref á síðasta ári.

Ég hef sagt ansi margt hér um Háskólann á Akureyri. Ég vonast virkilega til þess, í stað þess að við finnum þessari ákvörðun meiri hluta fjárlaganefndar allt til foráttu, að við reynum í (Forseti hringir.) sameiningu að styðja bæði við heimskautaréttinn og háskólann og hans mikla og mikilvæga starf.