144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að bregðast örstutt við því atriði sem var meginefni ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég ætla að láta nægja varðandi aðra hluta ræðu hans að segja að það fer honum vel að hrósa Framsóknarflokknum, fjármálaráðherra, fjárlaganefnd og öðrum sem hann vék að góðum orðum í fyrri hluta ræðu sinnar.

Varðandi þá tillögu sem hann hefur lagt fram og mælt fyrir um aukningu á framlögum til Þróunarsamvinnustofnunar upp á hálfan milljarð þá verð ég að segja að ég held að hv. þingmaður geti ekki reiknað með að á síðasta degi þings fyrir jól muni menn snúa við blaðinu og samþykkja slíka tillögu.

Varðandi þróunarsamvinnuna þá höfum við átt á bæði vettvangi utanríkismálanefndar og eins að einhverju leyti í þingsal umræður um þau mál, bæði á þessum vetri og þeim síðasta. Fram hefur komið af hálfu talsmanna ríkisstjórnarflokkanna að um væri að ræða það að menn hefðu tekið ákvörðun um að seinka þeirri aukningu á framlögum til þróunaraðstoðar sem gert var ráð fyrir í þróunarsamvinnuáætluninni sem samþykkt var í lok síðasta kjörtímabils.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er eðlilegt í ljósi þessara aðstæðna, eða breyttu sjónarmiða getum við sagt, að ný þróunarsamvinnuáætlun verði tekin til umræðum og umfjöllunar á þingi og það hefur hæstv. utanríkisráðherra boðað og við væntum þess að slík áætlun eða endurskoðuð áætlun komi til umræðu og umfjöllunar í þinginu eftir áramót.

Sama á auðvitað við um lög um þróunarsamvinnu sem boðað hefur verið að verði tekin til endurskoðunar þannig að við munum fá tækifæri til að fara í nýja stefnumörkun að þessu leyti á vorþingi.